Mismunað vegna trúarbragða

AFP

Framkoma flugfreyju við konu af íslamskri trú hefur vakið mikla reiði á veraldarvefnum. Konan, Tahera Ahmad, birti færslu á Facebook í gær þar sem hún greinir frá mismunun og ofbeldisfullri orðræðu sem hún segist hafa orðið fyrir um borð í vél United Airlines.

Í færslunni segir hún frá því að flugfreyjan hafi neitað að gefa henna óopnaða dós af Diet Coke. Sagði flugfreyjan að hún mætti ekki afhenda farþegum óopnaðar dósir þar sem þeir gætu notað þær sem vopn en hún afhenti þó farþeganum við hlið Ahmad óopnaða bjórdós. Eftir að hafa mótmælt framkomu flugfreyjunnar við hana sjálfa og svo aðrir heyrðu þurfti Ahmad að þola hatursfullar athugasemdir farþega sem sagði „Þið múslimar, þið þurfið að steinhalda kjafti.“

Notendur samfélagsmiðla hafa stutt við Ahmad með myllumerkinu #unitedfortahera og jafnvel sagst ætla að sniðganga United Airlines þar til tekið væri á málinu. Í seinni færslu sinni um málið segir Ahmad flugfreyjuna hafa beðið sig afsökunar og að flugstjórinn hafi einnig komið sérstaklega til hennar og beðist afsökunar. Í svari til Buzzfeed News segist flugfélagið hafa í hyggju að hafa samband við Ahmad til að dýpka skilning sinn á því sem átti sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert