Telja FBI vera á eftir Blatter

Sepp Blatter, fráfarandi forseti FIFA.
Sepp Blatter, fráfarandi forseti FIFA. AFP

Bandaríski fjölmiðillinn ABC segist hafa heimildir fyrir því að bandaríska alríkislögreglan FBI sé nú að rannsaka fráfarandi forseta FIFA, Sepp Blatter. Er það sögð vera ástæða þess að Blatter boðaði afsögn sína á blaðamannafundi í gær. Stuttu eftir uppljóstrun ABC birti New York Times frétt þar sem tekið er undir þá kenningu.

Blatter var endurkjörinn forseti samtakanna á föstudaginn í síðustu viku eftir mikla ringulreið á þingi samtakanna. Tveimur dögum áður voru níu fulltrúar í stjórn knattspyrnusambanda víðs vegar um heiminn handteknir, grunaðir um spillingu og fjárdrátt. Blatter sjálfur hélt fram sakleysi sínu enda sjálfur ekki handtekinn. Hann vann kosninguna en gagnrýnin á hann var gríðarleg.

Blatter hefur gegnt stöðu forseta hjá alþjóðaknattspyrnusambandinu frá árinu 1998 þegar hann tók við af Joao Havelange. Síðan þá hefur hann varist hverju mótframboðinu á fætur öðru.

Í gær beindust spjót alríkislögreglunnar einnig að framkvæmdastjóra samtakanna, Jerome Valcke. Er hann grunaður um að hafa innt af hendi margra milljón dollara greiðslu stuttu fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Suður-Afríku árið 2010 til Jacks Warners sem áður var hægri hönd Blatters og forseti knattspyrnusambands Mið- og Norður-Ameríku (CONCACAF).

Jack er nú á meðal þeirra 14 sem grunaðir eru um spillingu. Hann var forseti CONCACAF frá 1990-2011. Fulltrúar FIFA hafa staðfest að Warner fékk umrædda greiðslu árið 2010 en hafna því að hún hafi verið ólögmæt. Kenning þeirra sem rannsaka málið er sú að um sé að ræða greiðslu fyrir að kjósa með tillögu um að Suður-Afríka fengi að halda mótið.

Fulltrúar FIFA hafa svarað því til að umrædd greiðsla hafi verið samþykkt af þáverandi formanni fjárlaganefndar FIFA, Julio Grondona, sem lést í fyrra.

Jack Warner.
Jack Warner. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert