Svissneskir bankar tilkynntu brotin

Michael Lauber á blaðamannafundinum í dag.
Michael Lauber á blaðamannafundinum í dag. AFP

Svissneskir saksóknarar rannsaka nú 53 peningaþvættismál sem snúa að kosningunni um það hvaða lönd fá að halda heims­meist­ara­mótið í knatt­spyrnu árin 2018 og 2022. Auk þess eru rúmlega hundrað mál í rannsókn sem snúa að grunsamlegum hreyfingum á svissneskum bankareikningum.

Michael Lauber, dómsmálaráðherra Sviss, sagði á blaðamannafundi í dag að svissneskir bankar hefðu tilkynnt þessa grunsamlegu starfsemi til lögreglu. Sagði hann ráðuneytið nú rannsaka „gríðarlegt magn“ mála sem snúa að Fifa. Rannsóknin fer fram samhliða rannsókn sem stendur yfir í Bandaríkjunum.

Í síðasta mánuði voru sjö stjórn­ar­menn FIFA hand­tekn­ir aðeins tveim­ur dög­um fyr­ir aðalþing knatt­spyrnu­sam­bands­ins, grunaðir um margs kyns af­brot. Menn­irn­ir eru meðal ann­ars sakaðir um pen­ingaþvætti, fjár­glæfra­starf­semi og ra­f­ræn fjár­svik á und­an­förn­um tutt­ugu árum.

Snúa af­brot­in meðal ann­ars að kosn­ing­unni um hvaða land fengi að halda heims­meist­ara­mótið í knatt­spyrnu árið 2010 og mút­ur í tengsl­um við heims­meist­ara­mótið í Frakklandi árið 1998. Eins og fram hefur komið samþykktu stjórnarmenn meðal annars mútur í aðdraganda HM 2010 til að sjá til þess að mótið yrði haldið í Suður-Afríku.

Það voru bandarísk yfirvöld sem fóru með rannsókn málsins en stjórnendur FIFA eru sakaðir um að hafa þegið tugi millj­óna Banda­ríkja­dala í mút­ur und­an­farna ára­tugi.

Búið var að veita Rússlandi og Katar réttinn til að halda heimsmeistaramótin árin 2018 og 2022, en það gæti breyst ef frekari vísbendingar um mútur koma upp. Bæði lönd neita þó að hafa gert nokkuð rangt. 

Lauber sagði á blaðamannafundinum að rannsóknin væri „mjög stór og flókin“ og myndi taka langan tíma. Þá sagði Lauber að hann útilokaði ekki að þurfa að yfirheyra forseta Fifa, Sepp Blatter, við rannsókn málsins. Blatter hefur neitað fyrir að hafa gert nokkuð rangt en tilkynnti fyrr í mánuðinum að hann myndi segja af sér.

„Fótboltaheimurinn verður að vera þolinmóður. Þessi rannsókn mun taka lengri tíma en hinar klassísku 90 mínútur,“ sagði Lauber á fundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert