Aldrei fleiri verið á flótta

AFP

Ný skýrsla Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Global Trends, sýnir að fjöldi fólks sem neyðist til að flýja heimkynni sín hefur stigmagnast en 59,5 milljónir manna höfðu neyðst til að leggjast á flótta í lok árs 2014 í samanburði við 51,2 milljónir árið á undan og 37,5 milljónir tíu árum þar áður.

Aukningin síðan 2013 er sú mesta sem skráð hefur verið á einu ári.

Flóttamannahjálpin vekur athygli á að í vændum séu varhugaverðir tímar vegna vaxandi flóttamannavanda í heiminum. Skýrslan var gefin út í dag, en hún sýnir að flóttamannavandinn í heiminum, sem rekja má til stríðsátaka og ofsókna, er meiri en nokkru sinni fyrr og fer ört vaxandi.

Mesta aukningin hefur átt sér stað frá byrjun árs 2011 þegar stríð braust út í Sýrlandi og varð einn helsti orsakavaldur flóttamannavanda í heiminum í dag. Árið 2014 urðu daglega að meðaltali 42.500 manns landflótta, hælisleitendur eða vegalausir í eigin landi. Það er fjórföldun á aðeins fjórum árum. Einn af hverjum 122 jarðarbúum er nú annað hvort flóttamaður, vegalaus í eigin landi eða hælisleitandi. Ef þessi fjöldi endurspeglaði íbúa lands væri það 24. stærsta landið í heiminum, að því er segir í tilkynningu frá Sameinuðu þjóðunum.

„Við erum að verða vitni að grundvallarbreytingu, þar sem upp er runnið skeið þar sem flóttamannavandinn í heiminum er af slíkri stærðargráðu og nauðsynleg viðbrögð við honum slík, að þau munu bersýnilega skyggja á allt annað sem við höfum nokkru sinni séð áður í þessum efnum“, segir António Guterres flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. „Það er skelfilegt, að í aðra röndina komast þeir sem hefja átök upp með það í vaxandi mæli án nokkurra refsinga en í hina röndina virðist alþjóðasamfélagið algjörlega vanhæft til þess að vinna saman að því að stöðva stríð og stuðla að og viðhalda friði.“

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna sýnir að á hverju svæðinu á eftir öðru fer fjöldi flóttamanna vaxandi. Á síðustu fimm árum hafa að minnsta kosti fimmtán ný stríðsátök brotist út eða hafist að nýju. Átta eru í Afríku, það er Fílabeinsströndin, Mið-Afríkulýðveldið, Líbýa, Malí, Norðaustur-Nígería, Suður-Súdan og á þessu ári bættist Búrúndí við, þrjú eru í Mið-Austurlöndum, Sýrland, Írak og Jemen, eitt í Evrópu, Úkraína, og þrjú í Asíu, Kyrgyzstan og nokkur svæði í Myanmar og Pakistan.

Þessi átök hafa fæst verið leidd til lykta og flest munu leiða til enn frekari flóttamannavanda. Árið 2014 gátu aðeins 126.800 flóttamenn snúið aftur til síns heimalands sem er minna en nokkru sinni í 31 ár.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert