Yrði upphafið að endalokum evrunnar

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Útganga Grikkja úr evrusamstarfinu yrði upphafið að endalokum evrunnar. Þetta segir Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.

Í viðtali við austurríska blaðið Kurier í dag segir forsætisráðherrann að „Grexit“, þ.e. brottför Grikkja af evrusvæðinu, geti hvorki verið valkostur fyrir Grikki né Evrópusambandið. „Það yrði óafturkallanlegt skref. Það yrði upphafið að endalokum evrusvæðisins,“ sagði hann.

Hann benti á að afleiðingarnar yrðu slæmar fyrir alla Evrópu, ekki einungis Grikki. Hann áréttaði einnig að Grikkir gætu ómögulega skorið meira niður, eins og Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa krafist. Frekari niðurskurður hefði slæm áhrif á gríska hagkerfið. „Grikkland yrði ekki samkeppnishæfara og skuldirnar myndu ekki lækka. Það þarf að breyta heildarhugmyndinni.“

Fundur fjármálaráðherra evruríkjanna í gær reyndist árangurslaus. Leiðtogar ríkjanna hafa verið boðaðir á neyðarfund á mánudaginn í Brussel, höfuðborg Belgíu.

Grikkir þurfa að standa skil á 1,6 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir 30. júní næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert