Það fögnuðu ekki allir regnboganum

Mark Zuckerberg réð á vaðið með regnbogafánamynd.
Mark Zuckerberg réð á vaðið með regnbogafánamynd. Skjáskot af Facebook

Dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna um jafnan rétt til hjónabands óháð kynhneigð var fagnað víða um heim. Gleðialdan var óvíða eins bersýnileg og á Facebook, þar sem 26 milljónir notenda nýttu þartilgert tól til að varpa regnbogalitri hulu yfir einkennismynd sína.

Uppátæki Facebook var þó ekki tekið fagnandi á öllum bæjum og fyrirtækið m.a. vænt um hræsni og efasemdir viðraðar um raunverulegan tilgang regnbogatólsins, sérstaklega í ljósi tilhneigingar samskiptamiðilsins til að safna og selja upplýsingar um notendur.

Fleiri voru þó beinlínis á móti útbreiðslu regnbogafánans, ekki síst í Rússlandi og Arabaríkjum.

Samkvæmt BBC gripu óánægðir rússneskir notendur m.a. til þess ráðs að búa til hulur í litum þjóðfánans í mótmælaskyni, en í Rússlandi er ólöglegt að veita ungmennum yngri en 18 ára upplýsingar um samkynhneigð og samkvæmt nýlegri könnun eru 80% Rússa á móti samkynja hjónaböndum.

Í Mið-Austurlöndum tísti Sharif Najm frá Egyptalandi að regnbogafáninn boðaði særandi skilaboð, en Rami Isa frá Sýrlandi bölvaði þeim sem höfðu gert aðför að sakleysi æskunnar með því að tákngera regnbogann með þessum hætti.

Í Egyptalandi tístu um 2.000 manns um regnbogatól Facebook, flestir á neikvæðum nótum. Einhverjir gengu svo langt að kenna regnbogaöldunni um storm sem gekk yfir um helgina.

Umfjöllun BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert