Aðskilnaðarsinnar boða kosningar

Úkraínskur hermaður mundar vopn sitt nærri bænum Starognativka í Donetsk …
Úkraínskur hermaður mundar vopn sitt nærri bænum Starognativka í Donetsk héraði. AFP

Aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu hafa lýst því yfir að þeir hyggist halda kosningar um stöðu Donetsk sem sjálfstjórnarsvæðis innan Úkraínu 18. október næstkomandi. Leiðtoginn Alexander Zakharchenko segir að byggt verði á úkraínskum lögum, að því marki sem þau ganga ekki í berhögg við stjórnarskrá og lög Donetsk.

Aðskilnaðarsinnana og stjórnvöld í Kíev greinir á um framkvæmd friðarsamkomulags sem undirritað var í febrúar sl. Samkomulagið kveður á um að aðilar eigi viðræður um mögulegar kosningar í Donetsk og Lugansk fyrir árslok, en samkvæmt úkraínskum lögum er það aðeins á forræði yfirkjörstjórnarinnar í Kíev að skipuleggja og framkvæma slíkar kosningar.

Þá hafa aðskilnaðarsinnar hótað því að koma í veg fyrir að embættismenn á svæðunum sem eru hliðhollir stjórnvöldum í Kíev geti boðið sig fram.

Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, hefur tjáð sig um yfirlýsingar aðskilnaðarsinna og segir að hvers kyns kosningar sem ganga í berhögg við úkraíns lög jafngiltu rússneskri aðför að friðarsamkomulaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert