Evrópa bíður átekta - samantekt

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, sagði í dag að hann myndi frekar „skera af sér handlegginn“ en sitja áfram í embætti ef Grikkir kjósa að ganga að skilmálum lánadrottna ríkisins í þjóðaratkvæðagreiðslunni á sunnudag.

Varoufakis sagði í samtali við ástralska útvarpsstöð að það kæmi vel til greina að ríkisstjórnin segði af sér ef niðurstaðan yrði „já“ en forsætisráðherrann Alexis Tsipras gaf til kynna í viðtali í gríska sjónvarpinu að hann myndi mögulega sitja áfram og framfylgja vilja þjóðarinnar, jafnvel þótt hann gangi gegn því sem ráðherrann hefur barist fyrir.

Þótt útlit sé fyrir að dagarnir fram að kosningum verði tíðindalitlir héldu ráðamenn áfram að gefa út yfirlýsingar og viðra vangaveltur í dag. Langþreyttir Evrópuleiðtogar vöruðu við því að ef stjórnvöld í Grikklandi fengju sínu framgengt í atkvæðagreiðslunni yrði evrusamstarfið komið á óþekktar slóðir, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lækkaði hagvaxtarspár sínar fyrir Grikkland árið 2015 úr 2,5% í núll.

Þá sagði sjóðurinn ljóst að fjármagnsþörf Grikkja næstu þrjú árin myndi nema a.m.k. 50 milljörðum evra.

Frétt mbl.is: AGS kallar eftir skuldaniðurfellingu

Höft og óvissa taka sinn toll

„Núna eru það bara bankarnir. En ef gert verður áhlaup á matvöruverslanir og eldsneyti verður af skornum skammti, þá gæti það leitt til óeirða, til ringulreiðar, jafnvel valdaránstilraunar af þeirri gerð þegar herstjórnin tók völd 1967,“ sagði lögmaðurinn Georgiadis Aris í samtali við AFP.

Til stuttra átaka kom á milli mótmælenda og óeirðarlögreglu í Aþenu í dag, þegar 6.000 manns komu saman á Syntagma-torgi og kölluðu eftir því að samlandar þeirra segðu já í atkvæðagreiðslunni á sunnudag. Á sama tíma söfnuðust 1.200 saman við háskóla í nágrenninu og lýstu yfir stuðningi við ríkisstjórnina.

„Það er engin framtíð fyrir þetta land innan Evrópusambandsins. Vegna aðhaldsaðgerðanna er bara fátækt, fólk að deyja á götunni, að fremja sjálfsvíg,“ sagði hin 26 ára gamla Marta við AFP.

Báðar fylkingar hafa boðað til mótmæla á morgun.

Þjóðin klofin

Tsipras ítrekaði enn og aftur í dag að atkvæðagreiðslan snérist ekki um stöðu Grikklands í Evrópu, þvert á það sem viðsemjendur hans hafa lagt áherslu á undanfarna daga. Hann hefur sagt að nei í kosningunum muni styrkja stöðu hans við samningaborðið.

Jeroen Dijsselbloem, leiðtogi evruhópsins, sagði hins vegar í dag að „nei“ myndi alls ekki verða þjóðinni til góða, aðstaða Grikklands yrði þvert á móti „ótrúlega erfið“.

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, steig hins vegar fram í kvöld og sagði í samtali í ítölsku sjónvarpi að Grikkir væru ekki á leið út úr evrusamstarfinu, þeir myndu gera allt til að ná samkomulagi.

Skoðanakannanir hafa ekki gefið afdráttarlausa vísbendingu um úrslitin en ein könnun sem lekið var í dag benti til þess að 47% hygðust kjósa já en 43% nei.

Enn er möguleiki á að ekki verði af atkvæðagreiðslunni en grískur dómstóll mun á morgun úrskurða um lögmæti hennar.

Fjármálamarkaðir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og lánadrottnar Grikklands bíða nú þess sem verða vill. Fjármálasérfræðingar eru ekki frekar sammála um afleiðingar niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar frekar en aðrir, það eitt er víst að hvernig sem fer er engin auðveld leið út úr skuldavandanum fyrir grísku þjóðina.

Nei nei nei, segja veggspjöldin.
Nei nei nei, segja veggspjöldin. AFP/ARIS MESSINIS
Lífeyrisþegar bíða eftir að bankinn opnar, en sérstök undanþága er …
Lífeyrisþegar bíða eftir að bankinn opnar, en sérstök undanþága er gerð fyrir þá sem ekki nota greiðslukort. AFP/ARIS MESSINIS
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert