Smáhvíld frá hitanum í dag

Íbúar Bretlands fá í dag smáhvíld frá hitanum sem ríkt hefur í landinu. Hitinn í gær var 36,7 gráður sem er mesti hiti sem mælst hefur í júlí. Mesti hiti sem mælst hefur í Bretlandi er 39,5 gráður en það var í ágúst 2003.

Tveir drukknuðu þegar þeir reyndu að kæla sig niður í hitanum. Annar mannanna drukknaði í ánni Esk í bænum Longtown, sem er í Englandi rétt við landamæri Skotlands. Hinn maðurinn drukknaði í á á Suffolk-svæðinu, norðaustan við London. Yfirvöld sendu þá út yfirlýsingu þar sem fólk er varað við því að synda á svæðum sem hafa ekki gæslu. Fólk er sérstaklega varað við því að þegar það hoppar út í kalt vatn úr miklum hita getur líkaminn fengið sjokk og fólk lent í vandræðum.

Hitinn hefur ekki náð slíkum hæðum síðan árið 2003 en hitabylgja geisar víðs vegar í Evrópu um þessar mundir. Við slíkar aðstæður er fólk hvatt til þess að drekka vatn og forðast að vera úti á heitasta tíma dagsins.

Unglingar leika sér í hitanum í London.
Unglingar leika sér í hitanum í London. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert