Týnda fjölskyldan er í Sýrlandi

Fjölskyldan sem skilaði sér ekki heim. Að sögn ættingja eru …
Fjölskyldan sem skilaði sér ekki heim. Að sögn ættingja eru þau nú í Sýrlandi. Skjáskot/Sky News

Meðlimir tólf manna fjölskyldu frá Luton í Bretlandi hafa haft samband við ættingja sína og látið þá vita að þau séu í Sýrlandi. Ættingjar fólksins lýstu eftir þeim eftir að þau skiluðu sér ekki heim úr fríi um miðjan maí. Fólkið var í Bangladess en stoppaði á heimleiðinni í Tyrklandi.

Í frétt BBC kemur fram að leitað hefur verið í húsi eins fjölskyldumeðlimsins og var annar stöðvaður á Heathrow-flugvelli áður en þau yfirgáfu landið. Sú sem var stöðvuð er talin vera hin 21 árs gamla Rajia Khanom. Hún var stöðvuð af öryggisvörðum en hún þótti líkleg til þess að vera á leið til Sýrlands. Hún var hins vegar ekki handtekin.

Týnda fjölskyldan samanstendur af hjónunum Muhammed Abdul Mannan, 75 ára, og eiginkonu hans Mineru Khatun sem er 53 ára, dóttur þeirra Raju Khanom, 21 árs, og sonum þeirra Mohammed Zayd Hussain, 25 ára, Mohammed Toufique Hussain, 19 ára, Mohammed Abil Kashem Saker, 31 árs, og eiginkonu hans Sheidu Khanam, 27 ára. Þar að auki eru hjónin Mohammed Saleh Hussain, 26 ára, og Roshanara Begum, 24 ára, með í för ásamt þremur börnum á aldrinum eins til ellefu ára.

Að sögn lögreglu ferðaðist fjölskyldan til Bangladess 10. apríl og aftur til Istanbúl í Tyrklandi 11. maí. Áttu þau flug aftur til Englands þremur dögum seinna sem þau fóru ekki í. Tveir synir Mannan úr fyrra hjónabandi tilkynntu lögreglu að fjölskyldan væri týnd. Þeir búa einnig í Luton.

Ashuk Ahmed, sem hefur þekkt fjölskylduna í 35 ár, sagði í samtali við BBC að enginn kannaðist við að þau tilheyrðu ofstækishópum í Sýrlandi.

Hins vegar hafði hann heyrt af því að konurnar í fjölskyldunni gætu hafa orðið fyrir áhrifum af öfgahópum og farið með fjölskylduna til Bangladess til þess að yfirvöld myndu ekki uppgötva það.

Fyrri frétt mbl.is:

Skiluðu sér ekki heim eftir fríið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert