Evrópusambandið „virðir niðurstöðuna“

Er meinlæti Grikkja lokið?
Er meinlæti Grikkja lokið? AFP

Fréttin er uppfærð eftir því sem upplýsingar berast og eru nýjustu fréttir efst á síðunni.

Uppfært 22:19 -Niðurstaðan hryggileg

Jeroen Dijsselbloem, forseti vinnuhóps fjármálaráðherra ESB ríkjanna segir niðurstöðu kosningana vonbrigði. „Þessi niðurstaða er hryggileg fyrir framtíð grísks efnahags, erfiðar aðgerðir og umbætur eru óhjákvæmilegar. Nú bíðum við eftir framtökum grískra yfirvalda.“

Uppfært 21: 36 - Virða niðurstöðuna

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins virðir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar samkvæmt stuttri yfirlýsingu sem gefin var út í kvöld. Forseti framkvæmdastjórnarinnar, Jean-Claude Juncker hyggst halda fjarfund í fyrramálið með forseta Seðlabanka Evrópu Mario Draghi og Jeroen Dijsselbloem, leiðtoga vinnuhóps Evrópusambandsins sem skipaður er fjármálaráðherrum Evrusvæðisins.

Íbúar í Þessalóniku fagna.
Íbúar í Þessalóniku fagna. AFP

Uppfært 21:06 - Tsipras talar

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands segist munu funda með leiðtogum grísku þingflokkanna í fyrramálið. Hann segir að skuldavandinn sé nú aftur á samningaborðinu en að úrslit kosninganna þýði ekki aðskilnað við Evrópu. „Í þeim erfiðu aðstæðum sem hafa yfirhöndina tókuð þið afar hugdjarfa ákvörðun í dag,“ sagði hann. „Ég er fullmeðvitaður um að það umboð sem þið gáfuð mér snýr ekki að aðskilnaði við Evrópu heldur að því að styrkja samningsstöðu okkar til að sækjast eftir raunhæfri lausn.“

Uppfært 20:55 - Yfirgefur Grikkland klúbbinn?

Fjármálaráðherra Slóvakíu er meðal þeirra sem lýst hafa yfir vonbrigðum vegna úrslita kosninganna.

 

 

Uppfært 20:25 - Hjarta Evrópu slær í Grikklandi

Um 80 prósent atkvæða eru nú talin. 62 prósent atkvæðanna segja nei og 38 segja já. Antonis Samaras, leiðtogi stjórnarandstöðunnar hefur sagt af sér við mikinn fögnuð nei-kjósenda á götum úti. Heimildir The Telegraph herma að að Merkel og Hollande hyggist kalla eftir sérstökum fundi um stöðu Grikklands á þriðjudag. 

Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis hélt óvæntan blaðamannafund íklæddur stuttermabol, og vakti það mikla lukku. 

„Frá og með morgundeginum, mun Evrópa, hverrar hjarta slær í Grikklandi í kvöld, byrja að græða sár sín, sár okkar. Nei dagsins í dag er stórt já fyrir hina lýðræðissinnuðu Evrópu,“ sagði Varoufakis.

Óformlegur klæðnaður Varoufakis á blaðamannafundinum vakti athygli.
Óformlegur klæðnaður Varoufakis á blaðamannafundinum vakti athygli. AFP

Uppfært 20:13 - Boltinn hjá Aþenu

„Við þurfum að taka þessum niðurstöðum, þær eru niðurstöður þjóðaratkvæðagræðslu sem gríska þjóðin tók þátt í. Hvaða ályktun verður dregin af því er fyrst og fremst ákvörðun Grikklands, þar með er boltinn nú á velli Aþenu,“ segir utanríkisráðherra Þýskalands.

Uppfært 20:04 - Hefur rifið niður brýr

Forseti Frakklands, Francois Hollande, og kanslari Þýskalands Angela Merkel munu funda á morgun í París samkvæmt heimildum fréttastofu AFP en einnig verður fundað í nefnd Evrópusambandsins um Evrusvæðið vegna niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Efnahagsráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel segir að með atkvæðagreiðslunni hafi Tsipras „rifið niður brýr“ milli Grikklands og Evrópu. Sagði hann erfitt að ímynda sér nýjar viðræður um skuldaniðurfellingu.

Evran er nú fallin um 1,6 prósent að því er AFP greinir frá.

Uppfært 19:20 - Evran fellur

Evran hefur fallið um 0,7% og stendur nú í um 1,1 Bandaríkjadal samkvæmt Business Insider.

Uppfært 19:05 - 61% Nei

 53 prósent atkvæðanna hafa nú verið talin. 61 prósent talinna atkvæða segja „nei“.

Frá kjörstað í Grikklandi.
Frá kjörstað í Grikklandi. AFP

Uppfært 18:50 - Nei-liðar fagna

Þúsundir nei-liða fagna nú á götum Aþenu eftir að fyrstu niðurstöður gáfu til kynna að þeir sem höfnuðu skilmálum lánardrottna myndu hafa sigurinn. Skarinn veifar fánum, kyrja slagorð og halda á lofti skiltum fyrir framan gríska þingið að sögn AFP.

Uppfært 17.55 - 60% nei

20 prósent atkvæða hafa nú verið talin og samkvæmt AFP eru 60 prósent þeirra merkt „nei“

Uppfært 17.53 - Vinna að samkomulagi

Stjórnvöld í Grikklandi segjast hafa sett aukinn kraft í að komast að samkomulagi við lánardrottna.

„Umleitanirnar munu stigmagnast frá og með í kvöld svo að samningar geti orðið,“ sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar, Gabriel Sakellaridis, við gríska fjölmiðla samkvæmt AFP. Hann bætti því við að Seðlabanki Grikklands myndi einnig senda beiðni til Seðlabanka Evrópu um meira neyðarfjármagn fyrir banka landsins.

Heimildir AFP herma að vinnuhópur ESB um evrusvæðið muni hittast á morgun og ræða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Rífandi stemning er meðal nei-liða fyrir framan þinghúsið.
Rífandi stemning er meðal nei-liða fyrir framan þinghúsið.

Uppfært 17.20 - „Lýðræðið hefur sigrað“

Varnarmálaráðherra Grikklands, Panos Kammenos, hefur gripið kannanirnar á lofti og fagnað sigri á Twitter. „Gríska þjóðin sannaði að hún beygir sig ekki fyrir fjárkúgunum, ógnum og hótunum. Lýðræðið hefur sigrað,“ tísti ráðherrann.

Stofnuð 16:50 - Kjörstöðum lokað

Síðustu skoðanakannanir benda til þess að Grikkland hafi kosið „nei“ í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ganga eigi að skilmálum lánardrottna ríkisins. Kjörstöðum hefur verið lokað og er búist við fyrstu niðurstöðum klukkan sex í kvöld að íslenskum tíma.

Símakönnun sjónvarpsstöðvarinnar Star bendir til þess að 49 til 54 prósent hafi hafnað skilmálunum á móti 46 til 51 prósenti sem hafi samþykkt. Könnun sjónvarpsstöðvarinnar Mega gaf svipaðar niðurstöður, 49,5 til 53,5 prósent „nei“ og 46,5 til 50,5 prósent „já“.

Ríkisstórn Alexis Tsipras forsætisráðherra hefur hvatt þjóðina ítrekað til að hafna skilmálunum í tilraun til að styrkja stöðu sína gagnvart erlendum lánardrottnum. 

Í skoðanakönnum í gær mátti vart á milli sjá hvort yrði ofan á. Þó að enn sé mjótt á munum þykir nú öllu líklegra að „nei“ hafi sigurinn.

Nei - sinni fagnar fyrstu niðurstöðum.
Nei - sinni fagnar fyrstu niðurstöðum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert