Konungleg skírn í Bretlandi í dag

Katrín hertogaynja, Vilhjálmur Bretaprins, Georg prins og Karlotta prinsessa eru nú mætt í kirkju heil­agr­ar Maríu Magda­lenu í Sandringham í Norfolk þar sem skírn prinsessunnar fer fram á eftir.

Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan kirkjuna, en þetta er annað tæki­færi al­menn­ings til að berja korna­barnið kon­ung­lega aug­um. At­höfn­in verður lokuð al­menn­ingi en aðdá­end­ur kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar fá stæði utan við kirkj­una og geta barið hana aug­um á leið inn og út úr kirkj­unni.

Fimm guðforeldrar

Fyrr í dag tilkynnti fjölskyldan hverjir guðforeldrar prinsessurnar yrðu, og hefur valið komið mörgum á óvart. Guðforeldrarnir eru fimm talsins ólíkt því þegar Georg prins sonur þeirra var skírður, en þá voru guðforeldrarnir sjö. Athygli vekur að enginn meðlimur konungsfjölskyldunnar er í hópnum.

Hópurinn samanstendur af vinum og gömlum skólafélögum hjónanna, auk þess sem tenging við Díönu prinsessu, móður Vilhjálms sem lést í bílslysi í París árið 1997, er áberandi. Í hópnum er Laura Fellowes, dóttir lafði Jane Fellowes, systur Díönu. Þau Vilhjálmur eru því systkinabörn.

Þá er Thomas van Straubenzee, einn elsti vinur Katrínar og góður vinur Harry prins, í hópnum. Díana prinsessa var einnig náin van Straubenzee-fjölskyldunni og var meðal annars barnfóstra frænda Thomasar áður en hún giftist Karli Bretaprins, föður Vilhjálms.

Auk þeirra er Adam Middleton, frændi Katrínar, í hópnum ásamt James Meade, vini og fyrrverandi skólafélaga Vilhjálms, og Sophie Carter, vinkonu Katrínar.

Skírnin tengist Díönu prins­essu á marg­vís­leg­an hátt, en auk tengingar guðforeldranna við hana var Díana sjálf skírð í sömu kirkju á sínum tíma. Þá ber Karlotta einnig millinafnið Díana. Ljós­mynd­ar­inn Mario Test­ino mun sjá um að festa at­höfn­ina á filmu, en hann var ná­inn Díönu og tók sum­ar þekkt­ustu mynd­anna af henni aðeins fá­ein­um mánuðum fyr­ir dauða henn­ar. Test­ino tók einnig trú­lof­un­ar­mynd­ir Vil­hjálms og Katrín­ar.

Prinsessan verður skírð af erkibiskupnum af Kantaraborg í einkaathöfn. Kirkjan stendur á landareign langömmu prinsessunnar, Elísabetar Englandsdrottningar, í göngufæri frá Amner Hall, sveitasetri fjölskyldunnar þar sem Vilhjálmur og Katrín búa nú.

Meðal gesta við at­höfn­ina verða hin 89 ára gamla drottn­ing og eig­inmaður henn­ar, Fil­ipp­us prins, faðir Vil­hjálms, Karl Bretaprins, og eig­in­kona hans Camilla auk for­eldra Katrín­ar, Carole og Michael Middlet­on.

Fyrsta barn þeirra Katrín­ar og Vil­hjálms, Georg prins, verður einnig viðstadd­ur, en hann fagn­ar tveggja ára af­mæli sínu 22. júlí. Bróðir Vil­hjálms, Harry, verður fjar­ver­andi þar sem hann er á þriggja mánaða ferð um Afr­íku.

Karlotta verður skírð með vatni úr ánni Jórd­an sem var sér­stak­lega sótt með flugi fyr­ir at­höfn­ina. Eft­ir at­höfn­ina er talið að skírn­inni verði fagnað með teboði á veg­um drottn­ing­ar­inn­ar í Sandring­ham.

Eldri bróðir Karlottu, Georg prins, var einnig skírður af erki­bisk­upn­um af Kantaraborg en í St. James höll í októ­ber 2013. Aðeins um sex­tíu vin­ir og fjöl­skyldumeðlim­ir fjöl­skyld­unn­ar voru viðstadd­ir. Georg klædd­ist skírn­ar­kjól úr blúndum sem er eft­ir­gerð af skírn­ar­kjól sem rúm­lega sex­tíu meðlim­ir kon­ungs­fjöl­skyld­unn­ar hafa klæðst frá ár­inu 1841. Ekki ligg­ur fyr­ir hvort Karlotta litla muni klæðast sama kjól við sína skírn­ar­at­höfn.

Kirkj­an hef­ur tölu­verða þýðingu fyr­ir bresku kon­ungs­fjöl­skyld­una, því að fjöl­skyld­an kem­ur ævinlega sam­an í henni á jóla­dag, auk þess sem Dí­ana heit­in prins­essa var skírð þar.

Skírn­ar­font­ur­inn sem notaður verður við at­höfn­ina er mik­ill silf­ur­grip­ur, sem er að jafnaði til sýn­is ásamt öðrum krúnu­djásn­um í Lundúnaturni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert