Cosby viðurkenndi brot sitt

Bill Cosby.
Bill Cosby. AFP

Sjónvarpsstjarnan Bill Cosby játaði í vitnaleiðslum árið 2005 að hafa byrlað konu eiturlyf og misnotað kynferðislega. Fréttaveitan AP greinir frá þessu nú í kvöld en hún hefur undir höndunum gögn úr dómsmáli sem lauk með dómssátt árið 2006.

Í gögnunum kemur fram að Cosby játaði brot sín þegar árið 2005 eftir að kona hafði höfðað mál gegn honum fyrir að hafa byrlað sér ólyfjan og misnotað kynferðislega. Árið 2006 gerðu þau með sér dómssátt og í henni fólst að Cosby greiddi henni ákveðna upphæð í skaðabætur og hún lofaði að segja sögu sína ekki opinberlega. Viðurkenndi Cosby að hafa sett eina og hálfa töflu af lyfinu Benadryl í drykkinn hennar. Konan var á þessum tíma starfsmaður Temple University í Fíladelfíu í Bandaríkjunum.

Í vitnaleiðslu árið 2005 sagðist Cosby hafa brotið gegn þessari tilteknu konu „auk annarra.“

Síðastliðið ár hafa 35 konur stigið fram og sakað Cosby um að hafa misnotað sig en Cosby hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. Fyrsta ásökunin á hendur honum var frá fyrirsætunni Janice Dickinson. Hún steig fram í tengslum við heimildarmynd sem Netflix vann að og átti að fjalla um ævi Cosbys. Greindi Dickinson frá því að hann hafi byrlað sér ólyfjan og misnotað sig á níunda áratugnum. Upphaflega ætlaði hún að leysa frá skjóðunni árið 2002 í sjálfsævisögu sinni en bókaútgefandinn bannaði henni það.

Þegar forsvarsmenn Netflix fréttu af þessu máli var hætt við heimildarmyndina og boltinn fór að rúlla. Ein af annarri stigu konurnar fram og höfðu allar svipaða sögu að segja.

Sjónvarpsstöðin NBC var einnig með heimildarmynd um Cosby í bígerð þegar ásakanirnar hrönnuðust upp. Var þá ákveðið að hætta við myndina. 

Nú á síðari árum hafa fleiri og fleiri vinir Cosbys lýst yfir stuðningi við konurnar, þar á meðal Hugh Hefner eigandi tímaritsins Playboy. Það sem fyllti mælinn hjá honum var þegar kona greindi frá því að Cosby hafði nauðgað henni í veislu á Playboy-setrinu árið 1974.

Lögfræðingar Cosbys reyndu að koma í veg fyrir að AP fengi aðgang að gögnunum frá dómsmálinu 2005 en höfðu ekki erindi sem erfiði. 

Sjá frétt NBC

Janice Dickinson segir Bill Cosby hafa nauðgað sér árið 1982.
Janice Dickinson segir Bill Cosby hafa nauðgað sér árið 1982. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert