Varoufakis segir af sér

Yanis Varoufakis sagði af sér sem fjármálaráðherra Grikklands í morgun.
Yanis Varoufakis sagði af sér sem fjármálaráðherra Grikklands í morgun. AFP

Fjármálaráðherra Grikklands, Yanis Varoufakis, tilkynnti í morgun að hann ætlaði að segja af sér þrátt fyrir að gríska þjóðin hafi hafnað samningnum við lánardrottna landsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær.

Hann segir að fljótlega eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi legið fyrir hafi honum verið tjáð að fjarveru hans væri ekki óskað af hálfu ýmissa sem koma að samningsgerðinni við Grikki.

Varoufakis, sem hefur ítrekað lent saman við lánardrottnana í viðræðunum undanfarna mánuði, greinir frá þessu í færslu á Twitter í morgun.

Að sögn Varoufakis tók forsætisráðherra Grikklands vel í þessa hugmynd um fjarveru hans og því hafi hann ákveðið að láta af starfi fjármálaráðherra Grikklands í dag.

Segja fréttaskýrendur að svo virðist sem Alexis Tsipras forsætisráðherra hafi farið að vilja alþjóðlegra lánardrottna ríkisins með því að ákveða að Varoufakis komi ekki að viðræðunum framar.

Varoufakis varar við því að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar, þar sem yfir 60% grísku þjóðarinnar sögðu nei við samningi við lánardrottna ríkisins sem höfðu gert kröfur um harðar niðurskurðaráætlanir í landinu, geti haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér, líkt og öll barátta fyrir lýðræðislegum réttindum.

Hann segir að semja þurfi upp á nýtt og sá samningur verði að fela í sér endurskipulagningu skulda, minni niðurskurð og raunverulegar umbætur.

Gengi evrunnar hækkaði eftir að Varoufakis tilkynnti afsögn sína í morgun en heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað í Asíu og svipaða sögu er að segja af þeim hlutabréfamörkuðum sem eru opnir.

Verð hlutabréfa hefur lækkað í morgun í kjölfar niðurstöðu grísku …
Verð hlutabréfa hefur lækkað í morgun í kjölfar niðurstöðu grísku þjóðaratkvæðagreiðslunnar í gær. AFP
Grikkir fögnuðu í gærkvöldi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar en 61,31% sögðu nei …
Grikkir fögnuðu í gærkvöldi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar en 61,31% sögðu nei en 38,69% sögðu já. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert