Bankar lokaðir áfram

Bankar í Grikklandi verða lokaðir til fimmtudags hið minnsta en allt bendir til þess að sáralítið fé sé til í hraðbönkum landsins. Leiðtogar evru-ríkjanna munu koma saman á neyðarfundi í  Brussel í dag þar sem niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Grikklandi verður rædd en Grikkir höfnuðu kröfum lánadrottna landsins. Forsætisráðherra Grikklands,  Alexis Tsipras, mun síðdegis kynna hugmyndir landsins varðandi frekari lánveitingar því til handa.

Leiðtogar Frakklands og Þýskalands hvetja Tsipras til þess að leggja raunhæft tilboð fram sem hægt er að ræða í viðræðum við lánadrottna. Francois Hollande, Frakklandsforseti segir að engum dyrum hafi verið lokað með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og Angela Merkel tekur í svipaðan streng. 

Á vef Independent kemur fram að Valdis Dombrovskis, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hafi sagt í gær á fundi með fréttamönnum að gríska ríkisstjórnin hafi eytt tíma og tækifærum en að framkvæmdastjórnin sé áfram reiðubúin til þess að vinna með Grikkjum. 

Samkvæmt Telegraph segir Valdis Dombrovskis að þjóðaratkvæðagreiðslan í Grikklandi hafi ekki verið samkvæmt lögum og að hún hafi flækt vinnu lánadrottna. Með atkvæðagreiðslunni sé staða Grikkja veikari þegar kemur að samningaborðinu. Það sé ekki lengur til umræðu að afskrifa hluta 380 milljarða evru skuldafjalls Grikkja. 

Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, sagði í viðtali við franska ríkisútvarpið í morgun að Frakkar geti ekki  tekið áhættuna af því að Grikkir yfirgefi evrusvæðið. Það myndi hafa víðtæk efnahagsleg áhrif út um allan heim og segist hann telja að það séu forsendur fyrir því að ná samkomulagi við grísk stjórnvöld.

Að sögn Valls er ekkert útilokað þegar kemur að viðræðum um skuldir Grikkja og endurskipulagninu efnhagskerfis landsins.

Þjóðverjar leggja til að rætt verði um að veita Grikkjum mannúðaraðstoð vegna þeirra stöðu sem upp er komin í landinu. Bandarísk stjórnvöld hvetja til þess að reynt verði að halda Grikklandi innan evru-samstarfsins og að efnahag landsins verði komið til bjargar svo skuldir landsins dragist saman og að þjóðarbúið fari að skila hagvexti.

Íbúar í Aþenu voru margir snemma á fótum í morgun til þess að taka sér stöðu í daglegri biðröð við hraðbanka borgarinnar en samkvæmt fjármagnshöftunum má einungis taka út 60 evrur daglega. Það hefur hins vegar gengið brösuglega þar sem margir hraðbankar eru tómir.

Seðlabanki Evrópu hefur tilkynnt að grískum bönkum verði áfram haldið á floti með fjárveitingum úr neyðarsjóðum. 

AFP
Beðið við hraðbanka í Aþenu
Beðið við hraðbanka í Aþenu AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert