Greindi yfir 500 manns ranglega með krabbamein

AFP

Læknir í Detroit í Bandaríkjunum hefur verið ákærður fyrir að hafa ranglega greint yfir 500 manns með krabbamein. Flestir „sjúklinganna“ voru fullfrískir en margir hlutu skaða af eftir langvarandi notkun sterkra krabbameinslyfja.

Flestir voru sendir í geisla- eða lyfjameðferð og rukkaði hann bandaríska ríkið um alls 34 milljónir dollara fyrir lyf á margra ára tímabili.

Auk þess að greina fullfrískt fólk með krabbamein er hann sakaður um að hafa gefið fólkinu allt of sterka skammta af lyfjunum. Sem dæmi skrifaði hann upp á 94 skammta af lyfinu rituximab handa manni sem hann sagði vera með krabbamein. Venjulega eru ekki veittir fleiri skammtar en átta, og það handa afar veikum sjúklingum.

Læknirinn hefur þegar játað að hafa stundað fjársvik en nú standa yfir réttarhöld í máli sem  fórnarlömbin 533 og aðstandendur þeirra hafa höfðað gegn honum. Aðalmeðferðin stendur nú yfir og var mikil dramatík í réttarsalnum í dag. 

„Þú eitraðir fyrir, pyntaðir og myrtir föður minn,“ sagði sonur eins fórnarlambsins sem lést eftir meðferð læknisins. Læknirinn sjálfur er viðstaddur réttarhöldin en sýndi engin svipbrigði í þær fjórar klukkustundir sem vitnaleiðslurnar stóðu yfir.

Hinn ákærði læknir naut ávallt mikillar virðingar á spítalanum sem hann vann á og hafði lengi vel stuðning lækna sem störfuðu með honum þar til einn þeirra sem starfaði undir handleiðslu hans ákvað að gera yfirvöldum viðvart og rannsókn málsins hófst.

Sjá frétt CBS-news.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert