Grikkir fá frest til sunnudags

Leiðtogar evruríkjanna funduðu í Brussel í kvöld þar sem tillögur Grikkja að fjárhagsaðstoð til landsins var á dagskrá - eða öllu heldur skortur á slíkum tillögum. Leiðtogarnir kvörtuðu á fundinum yfir því að Grikkir hafi enn ekki lagt fram neinar nýjar tillögur til lausnar á skuldavanda landsins.

Á fundinum var svo boðað til nýs fundar á sunnudaginn. Þar verða ekki bara leiðtogar evruríkjanna heldur allir pólitískir leiðtogar Evrópusambandsríkjanna viðstaddir. Sumir hafa túlkað það þannig að það þýði að framtíð Grikklands í Evrópusambandinu gæti ráðist þá þegar.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði á fundinum að Evrópusambandið sé með nákvæma áætlun fari svo að Grikklandi verði kastað út úr sambandinu. „Við erum með nákvæma áætlun. Grikkir komu ekki fram með neinar nýjar fjárhagstillögur í kvöld en það verða þeir að gera sem allra fyrst,“ sagði Juncker í samtali við The Guardian.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins varaði við því á fundinum í kvöld að aðeins séu fimm dagar þangað til allt gæti farið á versta veg. „Misheppnaðar tilraunir okkar til að komast að samkomulagi koma mest niður á grísku þjóðinni,“ segir Tusk og bætir við að málið hafi ekki einungis gríðarleg áhrif á Evrópu heldur einnig á pólitíska ástand heimsins.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var ekki bjartsýn á ástandið að fundi loknum. „Það er ekki grundvöllur fyrir nýjum björgunaraðgerðum frá evrópska seðlabankanum. Við verðum að bíða og sjá hvað Grikkir ætla að bjóða upp á í vikunni,“ sagði Merkel í samtali við Financial Times.

Hún staðfesti við dagblaðið að gríska ríkisstjórnin ætli sér að leggja fram nýjar tillögur að björgunaraðgerðum fyrir evrópska seðlabankann á miðvikudag og á fimmtudag leggja þeir fram ítarlegri aðgerðaráætlun fyrir leiðtoga evruríkjanna.

Leiðtogar evruríkjanna töluðu í kvöld mjög skýrt um það að slík aðgerðaráætlun verði að liggja fyrir áður en hægt verður að ræða nánara samkomulag við grísk yfirvöld. „Við virðum niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Grikklandi en grikkir verða að gera sér grein fyrir að þeir verða einnig að virða fullveldi 18 annarra þjóða,“ bætti Merkel við.

Renzi öllu bjartsýnni

Matteo Renzi forsætisráðherra Ítalíu var öllu bjartsýnni en Merkel þegar hann hitti blaðamenn í kjölfar fundarins. „Ákvörðun okkar í kvöld þýðir að við munum bíða til sunnudags eftir nýjum tillögum frá ríkisstjórn Grikklands. Ég vona að fundurinn á sunnudag verði síðasti fundur þessarar tegundar. Ég bind vonir viðað þetta leysist á farsælan hátt og að við komumst að samkomulagi á sunnudag. Ég er ekki svarsýnn“ sagði Renzi.

Alexis Tsipras, Angela Merkel Jean-Claude Juncker og Francois Hollande hittust …
Alexis Tsipras, Angela Merkel Jean-Claude Juncker og Francois Hollande hittust í dag fyrir fund leiðtoga evruríkjanna þar sem ákveðið var að Grikkir fái frest til sunnudags til að leggja fram nýjar tillögur að lausn skuldavanda síns. AFP
Bæði Matteo Renzi forsætisráðherra Ítalíu og Angela Merkel kanslari Þýskalands …
Bæði Matteo Renzi forsætisráðherra Ítalíu og Angela Merkel kanslari Þýskalands ræddu við fjölmiðla að loknum fundi í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert