Lögreglan rannsakar mál Cosbys

Bill Cosby.
Bill Cosby. AFP

Lögreglan í Los Angeles hefur í dag staðfest að rannsókn standi yfir í máli 25 ára fyrirsætu sem kærði Bill Cosby fyrir nauðgun. Á nauðgunin að hafa átt sér stað þegar konan var 18 ára gömul, á Playboy-setrinu eftir að Cosby byrlaði henni eiturlyf.

Lögmaður konunnar segir þær upplýsingar sem komu fram á sjónarsviðið í gær vera afar mikilvæga fyrir framhaldið. „Þetta skiptir miklu máli fyrir okkur, bæði varðandi refsimál lögreglunnar gegn honum og svo einkamálið sem við sjáum fram á að höfða gegn honum,“ sagði lögmaðurinn við Fox News í dag og bætti við: „Þessar upplýsingar virðast sanna að um raðnauðgara er að ræða.“

Konan kærði Cosby til lögreglunnar í janúar á þessu ári og bíður þess nú að ákæruvaldið höfði refsimál gegn honum.

Nú vonast lögmaður konunnar til þess að hægt verði að nota játningu Cosby úr málinu frá árinu 2005 í refsimálinu gegn honum. Upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Los Angeles vildi þó ekki tjá sig um hvort það yrði mögulegt.

Cosby hefur þrátt fyrir fréttir gærdagsins áfram haldið fram sakleysi sínu. Meðal annarra hefur Whoopi Goldberg síðan komið honum til varnar eins og mbl.is greindi frá í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert