Tekur árásina í Túnis ekki nærri sér

Amira Abase er fyrir miðju á myndinni.
Amira Abase er fyrir miðju á myndinni. AFP

Amira Abase, ein af skólastúlkunum þremur sem fóru til Sýrlands í febrúar á þessu ári, virðist ekki taka árásina á ferðamannastaðinn í Túnis þar sem tæplega fjörutíu manns létu lífið nýlega mjög nærri sér.

Í samtali við blaðamann, sem þóttist vera ung stúlka og greindi henni frá fréttunum, sagði Abase einfaldlega „LOL“ sem er skammstöfun fyrir „laughing out loud“ sem á íslensku mætti útleggjast sem „að skella upp úr.“

Abase var fimmtán ára þegar hún ferðaðist frá Sýrlandi. Blaðamaðurinn sem ræddi við hana þóttist vera unglingur sem velti fyrir sér að ferðast frá London til Sýrlands til að ganga til liðs við hryðjuverkahóp.

Ráðlagði „ungu stúlkunni“

Í samtali við blaðamanninn greinir Abase frá hlutverki sínu, að fá fleiri til að ganga til liðs við ríki íslams. Gaf hún henni ráð, meðal annars um hvernig best sé að ferðast til Sýrlands, hvernig leyna eigi áætlunum sínum fyrir foreldrum og hvaða skilyrði sé gott að setja áður en gengið er í hjónaband með meðlimum samtakanna.

Blaðamaðurinn ræddi við Abase í gegnum samfélagsmiðlana Twitter og Kik. Blaðamaðurinn skrifaði meðal annars: „Það er allt að verða klikkað hérna. Þau héldu mínútu langa þögn í Túnis. Þau tala bara um sprengjutilræðið,“ skrifaði hún og svaraði Abase: „LOL.“

Abase fór ásamt skólasystrum sínum Shamimu Begum og Kadizu Sultana. Talið er að þær hafi gengist undir fjögurra mánaða þjálfun í Raqqa í Sýrlandi til að undirbúa þær fyrir „sérstakt verkefni.“

Í samtalinu við blaðamanninn sagði Abase einnig að stúlkur sem gangi til liðs við samtökin séu færðar í svokallað „systrahús“ (e. sistershouse) þar sem þær mega ekki nota síma, internet eða fara út. Hún greindi þó ekki frá því hvort hún væri gift en talið er að tvær af skólastúlkunum þremur séu giftar.

Frétt Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert