15 ára grunaður um morð á 12 ára stúlku

Lögreglubíll í Utah.
Lögreglubíll í Utah.

Fimmtán ára gamall drengur var á föstudag handtekinn í Utah í Bandaríkjunum, grunaður um morð á tólf ára gamalli stúlku. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á svæðinu þekktust drengurinn og stúlkan ekki.

Drengurinn er sagður hafa bankað upp á heima hjá stúlkunni í kringum miðnætti og platað hana út úr húsinu með því að segjast þurfa á hjálp að halda. Móðir hennar tilkynnti svo um hvarf hennar eftir að hún skilaði sér ekki heim, og stuttu síðar fannst lík hennar á beitilandi skammt frá heimilinu.

Lögregla telur líklegt að höfuðhögg hafi valdið dauða hennar, en hún hafði hvorki verið stungin né skotin. Fjölskylda stúlkunnar var nýflutt á svæðið, en drengurinn er þekktur af íbúum þar fyrir slæma hegðun.

Nafni drengsins er haldið leyndu í fjölmiðlum þar sem hann er undir lögaldri, en hann er sá eini sem er grunaður í málinu og verður að öllum líkindum ákærður fyrir morð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert