Gyðingar keppa á völlum nasista

Ólympíuleikvangurinn í Berlín árið 1936.
Ólympíuleikvangurinn í Berlín árið 1936. Af vef Wikipedia.

Rúmlega tvö þúsund íþróttamenn gyðingatrúar, frá 36 löndum, flykkjast nú til Berlínar til að taka þátt í hinum evrópsku Maccabi-leikum, þar sem keppt er í greinum á við badminton, körfubolta, skák og blak. Leikarnir hefjast í dag og verða fram til 5. ágúst, en þetta er í fyrsta skipti sem Þýskaland eru gestgjafar á leikunum.

Athygli hefur vakið að leikvangar sem byggðir voru af nasistum fyrir Ólympíuleikana árið 1936 munu nú hýsa þessa stærstu íþróttaleika gyðinga í Evrópu.

„Það er sérstakt gleðiefni fyrir okkur að leikarnir eru nú haldnir í Þýskalandi í fyrsta sinn,“ segir í tilkynningu frá Joseph Schuster, forseta gyðingaráðs Þýskalands. „Íþróttamenn úr röðum gyðinga sýna að við erum hluti af Evrópu og að við tilheyrum Þýskalandi, og við munum ekki leyfa neinum að taka það frá okkur.“

Neituðu gyðingum um að keppa á leikunum

Joachim Gauck, forseti Þýskalands, mun formlega setja leikina í kvöld með athöfn í berlínska hringleikahúsinu Waldbühne, sem upphaflega var byggt fyrir Ólympíuleikana árið 1936. Áttu þeir sér stað þremur árum eftir að Adolf Hitler varð kanslari Þýskalands, en stjórnvöld nasista bönnuðu öllum þýskum gyðingum að keppa á leikunum.

Þá var þeim Þjóðverjum sem áttu gyðinga fyrir forfeður einnig bannað að keppa, utan skylmingakonunnar Helene Mayer, sem fékk að keppa þrátt fyrir að faðir hennar hafi verið gyðingur.

Breska dagblaðið The Guardian fjallar um málið.

Leikvangurinn í núverandi mynd.
Leikvangurinn í núverandi mynd.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert