„Hagamaðurinn“ látinn laus

Niklas Lindgren
Niklas Lindgren Úr Morgunblaðinu

„Hagamaðurinn“ svonefndi var látinn laus úr fangelsi í Svíþjóð í morgun eftir að hafa afplánað níu ár af 14 ára fangelsisdómi fyrir fimm nauðganir og morðtilraun. 

Niklas Lindgren, sem er 43 ára gamall, gengur undir heitinu Hagamaðurinn vegna árása og nauðgana í Haga-hverfinu og nágrenni þess í Umeå á árunum 1998-2005. Í tveimur tilkvikum reyndi hann að myrða fórnarlömb sín.

Í sænskum fjölmiðlum í dag er mikið fjallað um lausn Lindgren og rætt við íbúa í Umeå sem hafa boðað til þagnarstundar á helsta torgi bæjarins í dag.

Það var á tíunda tímanum í morgun sem Lindgren var látinn laus úr Skogome fangelsinu í Gautaborg eftir að hafa afplánað tv0 þriðju dómsins.

„Ég man hvernig þetta var þegar hann lék lausum hala. Hugsaðu um öll fórnarlömb hans sem mæta honum kannski úti á götu,“ segir íbúi í Umeå í samtali við Aftonbladet.

Fyrr í mánuðinum snéri áfrýjunardómstóll við ákvörðun fangelsismálayfirvalda í Svíþjóð sem höfðu bannað Lindgren að snúa aftur til bæjarins. Var það ekki bara vegna hættunnar á að hann fremdi glæpi á nýjan leik heldur einnig með hans hag í huga því óttast var að gripið yrði til hefndaraðgerða gegn honum. 

Talsmaður lögreglu,  Börje Öhman, segir í samtali við fréttaveituna TT að vitað sé að hann geti verið í hættu og svo geti farið að það verði að vernda hann. En það hafi ekki enn komið til þess og hvetur hann fólk til þess að taka ekki lögin í sínar hendur. Hann segir að lögregla geri sér grein fyrir hræðslu íbúa og áhyggjum þeirra en vildi ekki tjá sig um möguleikann á að Lindgren nauðgi á nýjan leik.

Þrátt fyrir að vera laus úr fangelsi þá þarf Lindgren að mæta til skilorðsfulltrúa í hverri viku og eins að sækja fundi fyrir kynferðisafbrotamenn.

Frétt DN.se

Aftonbladet

SVD

Expressen

Steingerður Ólafsdóttir skrifaði eftirfarandi grein um málið í Morgunblaðið 1. maí 2006:

„Í lok mars sl. var loks bundinn endi á margra ára óvissu, sem íbúar borgarinnar Umeå í Norður-Svíþjóð höfðu búið við. Þá var Hagamaðurinn svokallaði handtekinn á grundvelli DNA-sannana. Maðurinn gekk undir þessu nafni vegna árása og nauðgana, sem átt höfðu sér stað í Haga-hverfinu og nágrenni þess í Umeå á árunum 1998-2005.

DNA-rannsóknir leiddu í ljós, að sami maðurinn hafði verið að verki í öll skiptin. Á grundvelli framburðar fórnarlambanna var gerð tölvumynd af árásarmanninum og hún ásamt DNA-prófi leiddu til þess, að Niklas Lindgren, 33 ára, var handtekinn 29. mars sl. eftir umfangsmestu rannsókn Umeå-lögreglunnar nokkru sinni. Í fyrstu neitaði hann sök en í síðustu viku viðurkenndi hann loks sex árásir. Fórnarlömb mannsins eru á aldrinum 14-51 árs og beitti hann þau grófu ofbeldi.

Málið hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð, ekki síst fyrir það að Lindgren er í sambúð og tveggja barna faðir. Á yfirborðinu virtist hann ósköp venjulegur bílasmiður, vinnusamur, hjálplegur og umhyggjusamur, eins og vinir, nágrannar og vinnufélagar hafa lýst í fjölmiðlum.

Einn frægasti og reyndasti lögmaðurinn í Svíþjóð, Leif Silbersky, er verjandi mannsins. Í samtali við TT-fréttastofuna segir hann að í öll þau 44 ár í starfi sínu sem verjandi hafi hann aldrei séð svona tilfelli tvöfalds lífernis, þar sem brotamaðurinn sé félagslega virkur og með svo gott orðspor. Ákveðið hefur verið að Lindgren muni gangast undir umfangsmikla geðrannsókn.

 Ósköp "venjulegur" maður

Í bráðabirgðageðrannsókn gaf Hagamaðurinn þá skýringu á ofbeldisverkunum að hann hefði verið fullur og þreyttur. Hluti gagna úr henni hefur verið gerður opinber en slíkt er mjög óvenjulegt. Í frétt Svenska Dagbladet kemur fram, að af þeim að dæma virðist t.d. ekkert óvenjulegt hafa átt sér stað í æsku mannsins. Hann hefur á yfirborðinu lifað venjulegu lífi og aldrei komist í kast við lögin.

Hann hefur ekki notað fíkniefni en drekkur venjulega um tíu bjóra þegar hann fer út og hefur orðið fyrir minnisleysi í tengslum við drykkju. Ofbeldisverkin áttu sér yfirleitt stað í tengslum við drykkju mannsins. Réttargeðlæknirinn Lennart Gustavsson skrifar að maðurinn virðist við fyrstu sýn ekki þjást af geðsjúkdómi en hann sýni ekki merki um leiða, sektarkennd eða eftirsjá vegna brotanna.“

<blockquote class="twitter-tweet">

Hagamannen har släppts ur fängelset – ”svårt att leva ett normalt liv” <a href="http://t.co/4aDIewa5ak">http://t.co/4aDIewa5ak</a> <a href="http://t.co/olYJuOu4vd">pic.twitter.com/olYJuOu4vd</a>

— Svenska Dagbladet (@SvD) <a href="https://twitter.com/SvD/status/625937096537210881">July 28, 2015</a></blockquote><script async="" charset="utf-8" src="//platform.twitter.com/widgets.js"></script><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert