Brot úr malasísku vélinni sem hvarf?

Dularfullt flugvélarbrak sem rak að ströndum eyjarinnar La Reunion í Indlandshafi í dag hefur vakið getgátur um að um sé að ræða brot úr vél Malaysia Airlines sem hvarf í mars í fyrra. Um er að ræða tveggja metra langan bút sem virðist vera úr flugvélarvæng.

„Það var þakið skeljum, svo maður myndi halda að það hefði verið í vatninu í langan tíma,“ hefur AFP eftir einum sjónarvotta. Frönsk flugstjórnaryfirvöld hafa þegar hafið athugun á því hvaðan brakið er komið.

Xavier Tytelman, sérfræðingur í loftumferðaröryggi, segir að ekki sé hægt að útiloka að brakið sé úr vélinni í flugi MH370, en ekkert hefur bólað á henni síðan hún hvarf af ratsjám yfir Suður-Kínahafi. Hún var þá á leið frá Kuala Lumpur til Peking.

239 voru innanborðs og eru þeir allir taldir af.

Að sögn Tytelman eru líkindi með brakinu sem fannst og væng vélar af þeirri tegund sem hvarf. Þá er á því númer,  BB670, sem ætti að gefa ákveðnar vísbendingar við rannsóknina.

Ástralskur leiðangur hefur nú kannað yfir 50 þúsund ferkílómetra sjávarbotnsins á afmörkuðu leitarsvæði á Indlandshafi, en fundið lítið annað en flutningagáma og eitt áður óþekkt skipsflak.

Ættingjar þeirra sem voru um borð í vélinni hafa gagnrýnt stjórnvöld í Malasíu harðlega fyrir viðbrögð sín í kjölfar hvarfsins og þá ákvörðun að beina leit að suðurhluta Indlandshafs.

Vangaveltur um örlög vélarinnar snúa nú aðallega að vélabilun eða framleiðslugalla, eða einhvers konar hryðjuverki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert