Hundruð kynferðisbrota gegn einu barni

Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Átta menn hafa verið ákærðir fyrir hundruð kynferðisbrota gagnvart þrettán ára gamalli stúlku í Ástralíu. Meðal þeirra er faðir stúlkunnar en lögregla telur að hann sé höfuðpaurinn í hrottalegu ofbeldi gagnvart barninu sem stóð yfir í tvö ár.

Rannsóknarlögreglan í Vestur-Ástralíu handtók mennina, sem eru á aldrinum 35-47 ára, í síðustu viku en ábending barst um ofbeldið frá almenningi í apríl. 

Mennirnir verða ákærðir fyrir 503 brot, þar á meðal kynferðisbrot gagnvart barni yngri en 13 ára, hafa deyft stúlkuna með eiturlyfjum og áfengi, upptökur á barnaníði og dreifingu á barnaníði.

Lögreglan í Perth tekur sem dæmi að einn mannanna átti yfir 200 þúsund myndskeið og fjórar milljónir mynda af barnaklámi en myndefnið var af fleiri börnum en stúlkunni. 

„Þetta er viðbjóðslegt efni. Það er ekki hægt að lýsa þessu með orðum,“ segir yfirmaður rannsóknarlögreglunnar Glenn Feeney á fundi með blaðamönnum í Perth. Hann segir að stúlkunni hafi verið bjargað úr höndum níðinganna og að hún fái alla þá aðstoð sem völ er á.

„Fórnarlambið er núna þrettán ára gamalt. Á meðan brotin voru framin var hún 11 til 13 ára gömul,“ sagði Feeney.

Feeney segir að faðir stúlkunnar sé meðal ákærðu en hann vildi ekki upplýsa um hvort faðirinn hafi fengið greitt fyrir að deila stúlkunni með öðrum níðingum. Það muni koma fram við réttarhöldin hvort níðingsverkunum gagnvart stúlkunni var stýrt af föður hennar. Hann neitaði að tjá sig um móður stúlkunnar. 

Lögreglan vinnur enn að rannsókn málsins og fer yfir þau gögn sem hald var lagt á. Feeney útilokar ekki að fleiri verði handteknir í tengslum við málið. Einn mannanna hefur þegar játað brot sitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert