Reyna í örvæntingu að ryðjast inn í göngin

AFP

Að minnsta kosti fimmtán hundruð örvæntingarfullir flóttamenn reyndu að komast inn í Ermarsundsgöngin í nótt í frönsku hafnarborginni Calais til Englands. Einn flóttamannanna fannst látinn í morgun.

Talsmaður Ermarsundsganganna segir að flóttamaðurinn sem lést sé frá Súdan og á aldrinum 25-30 ára. Hann varð fyrir flutningabifreið sem var ekið út úr ferjunni sem fer yfir Ermarsundið.

Það er nánast daglegur viðburður að örvæningarfullir flóttamenn og förufólk reyni að komast yfir Ermarsundið til Englands en í fyrrinótt reyndu um tvö þúsund að komast inn í göngin. 

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, lýsti í morgun yfir áhyggjum yfir ástandinu og segir að innanríkisráðherrann, Theresa May, muni stýra fundi öryggisráðs þar sem málefni flóttafólks verða rædd. Hann sagði fréttamönnum í Singapúr í morgun að hann hefði áhyggjur af ástandinu og að bresk yfirvöld ynnu náið með frönskum stjórnvöldum varðandi flóttamannastrauminn á milli landanna.

Alls hafa níu flóttamenn látist við Ermarsundsgöngin frá því í júní en um miðjan júní var öryggiseftirlit hert til muna við höfnina í Calais. Var það gert til þess að reyna að koma í veg fyrir að flóttamenn kæmust um borð í flutningabíla sem fara með ferjunni yfir Ermarsundið. 

Í byrjun júlí héldu um þrjú þúsund flóttamenn, flestir frá Eþíópíu, Erítreu, Súdan og Afganistan, til í Calais. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert