Féll af 17. hæð og lifði af

Reyes á leiðinni til jarðar.
Reyes á leiðinni til jarðar. Skjáskot

Ungur karlmaður féll um 40 metra ofan af 17. hæð húss í Síle. Hann lifði fallið af. Myndband úr öryggismyndavél af slysinu hefur verið birt.

Slysið átti sér stað í miðborg Rancagua. Sebastian Reyes, 23 ára, féll af svölum og á segldúk sem var yfir bílastæðum við húsið.

Reyes var fluttur á sjúkrahús og í ljós kom að mjaðmagrind hans og lærbein voru brákuð. Ástand hans var þó um tíma alvarlegt en hann var útskrifaður stuttu síðar og hefur tjáð sig um slysið. Hann fer um í hjólastól og segist ekki hafa fundið til við fallið.

„Ég fann að ég datt, en ekkert annað. Ég vaknaði ekki. Ég vaknaði á sjúkrahúsinu,“ segir hann í samtali við fjölmiðla í Síle.

Reyes datt fram af svölunum kl. 8.30 að morgni eftir að hafa verið í partíi með vinum sínum alla nóttina.

Kvöldið hófst með því að  horfa á fótboltaleik milli Síle og Bólivíu. Eftir það fóru vinirnir í klúbb. Reyes var svo kominn í íbúðina snemma um morguninn. Þar hélt partíið áfram. Þegar nágrannar kvörtuðu undan hávaða færðu þeir sig út á svalir. Og þar missti ungi maðurinn jafnvægið og datt.

„Þegar hann féll þá kallaði hann til okkar og við sáum hvar hann lenti,“ segir einn vinur hans. 

Þegar Reyes er spurður hvernig hann hafi getað lifað slysið af bendir hann á húðflúr á hendi sinni þar sem stendur: „Guð, ekki yfirgefa mig.“

Frétt Sky um málið.

mbl.is varar við myndskeiðinu hér að neðan. Það er ekki fyrir viðkvæma.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/PBef1Y1T210" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert