Tannlæknirinn skaut björn og laug

Tannlæknir í Minnesota, sem drap ljónið Cecil í Simbabve, ráðlagði sjúklingum sínum í gær að leita sér lækninga annars staðar. Viðbrögð almennings við drápinu hafa verið gríðarleg. Walter James Palmer hefur ekki látið sjá sig á almannafæri frá því að hann var nafngreindur í fjölmiðlum. Palmer skaut ljónið Cecil með lásboga. Dýrið særðist. Það var svo elt í 40 klukkustundir og skotið með riffli. 

Mótmæli fóru í gær fram í úthverfinu þar sem Palmer er með tannlæknastofuna sína. Hann lét ekki sjá sig.

Palmer hefur margsinnis farið til Afríku til að skjóta dýr. 

Tveir hafa verið ákærðir fyrir að aðstoða Palmer við drápið. Leiðsögumaður og landeigandi í Simbabve. Þeir komu fyrir dóm í gær. Þremenningarnir eru sagðir hafa lokkað Cecil út úr þjóðgarði og skotið á hann þar. Talið er að Palmer hafi greitt mönnunum tveimur um 7 milljónir króna. Lögreglan í Simbabve segist nú leita Palmers, en ekki er vitað hvar hann er staddur.

Palmer er 55 ára. Hann sendi sjúklingum sínum bréf í gær þar sem hann sagðist skilja að skiptar skoðanir væri um veiðar og ráðlagði sjúklingum sínum að leita sér lækninga annars staðar.

Palmer er giftur tveggja barna faðir. Árið 2009 var m.a. fjallað um hann í New York Times vegna áhuga hans á veiðum stórra dýra. Hann sagðist þar hafa lært að skjóta er hann var fimm ára. Í greininni segir að Palmer sé fær skytta, hann sé þekktur fyrir að nota lásboga við veiðarnar og bera byssu sem varavopn.

Cecil var veiddur að næturlagi. Mennirnir tveir frá Simbabve bundu dautt dýr við bíl sinn og lokkuðu  þannig ljónið út úr garðinum. Þessi aðferð er talin ósiðleg samkvæmt reglum Safariferðasamtaka Simbabve. Leiðsögumaðurinn, sem leiðbeindi Palmer, var meðlimur í þeim samtökum. Leyfi hans hefur nú verið afturkallað.

„Dýrin eiga að fá sanngjarnt tækifæri í veiðunum,“ segir Emmanuel Fundira, formaður samtakanna. „Í raun voru þetta ekki veiðar að nokkru leyti. Það var lögð beita fyrir dýrið og þannig á ekki að gera. Það er ekki leyfilegt.“

Í frétt AP-fréttastofunnar segir að ekki sé ljóst hvort að það að nota beitu við veiðar sé með öllu ólöglegt í Simbabve. Fundira segir svo þó vera. Dýraverndunarsamtökin Lion Aid segja hins vegar að lögin séu ekki skýr og því sé litið svo á að slíkt athæfi sé löglegt, en ósiðlegt.

„Ég hafði enga vitneskju um að ljónið sem ég felldi væri þekkt, eftirlæti heimamanna, væri með GPS-sendi á sér og hluti af rannsókn,“ sagði Palmer í yfirlýsingu. 

En samkvæmt bandarískum dómsskjölum játaði Palmer árið 2008 að hafa gefið falsaða yfirlýsingu til bandarískrar eftirlitsstofnunar með veiðum, U.S. Fish and Wildlife Service. Um var að ræða gögn um veiðar hans á svartbirni sem hann skaut í vesturhluta Wisconsin. Palmer hafði leyfi til að veiða en skaut dýrið fyrir utan svæði þar sem veiðar voru leyfðar. Hann reyndi hins vegar að láta líta út fyrir að hann hefði veitt dýrið annars staðar. Hann fékk skilorðsbundinn dóm og háa fjársekt. 

Talið er að Cecil hafi verið felldur 1. júlí. Hræ hans fannst nokkru seinna. Búið varð að flá hann og afhöfða. Höfuðsins er leitað.

Mótmæli fyrir utan tannlæknastofu Walters Palmer.
Mótmæli fyrir utan tannlæknastofu Walters Palmer. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert