Hafa ekki samið um bætur

Mistral-herskip.
Mistral-herskip. AFP

Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur neitað því að þarlend stjórnvöld hafi samþykkt að greiða Rússum skaðabætur vegna tveggja herskipa sem Frakkar hættu við að selja Rússum í kjölfar þess að átök brutust út í Úkraínu.

Vladimir Kozhin, hernaðarráðgjafi Vladimir Pútín Rússlandsforseta, sagði í dag að viðræðum um greiðslu skaðabóta væri lokið, bæði hvað varðaði „tímaramma og upphæðir“.

Hollande sagði hins vegar á blaðamannafundi í dag að enn væri rætt um mögulegar bætur og að hann myndi taka ákvörðun í málinu á næstu vikum.

Umræddur samningur náði til tveggja Mistral flugmóðurskipa og er metinn á 1,2 milljarða evra. Rússar höfðu greitt 840 milljónir evra fyrirfram.

Fregnir herma að skaðabætur Frakka til handa Rússum verði allt að 1,16 milljarðar evra, en Rússar hafa þegar varið nokkrum fjármunum í þjálfun 400 sjóliða, hafnaraðstöðu fyrir skipin í Vladivostok og þróun fjögurra frumgerða Ka-52K þyrla.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert