Heilt ár úti í náttúrunni

Elise Theoline og Andreas.
Elise Theoline og Andreas. Mynd/Instagram

Norsku hjónin Elise Theoline Skagøy og Andreas Skagøy eru ekki eins og hjón flest. Þetta unga par ákvað í fyrra að selja íbúðina sína og flytja út í náttúruna. Í heilt ár hafa þau nú bara lifað á því sem náttúran gefur af sér og hafa haldið úti bloggsíðunni Et liv ute.

Þau hafa bæði lengi haft áhuga á útivist. Elise Theoline vakti fyrst athygli þegar norska ríkissjónvarpsstöðin gerði heimildarþátt um ákvörðun hennar um að gista úti í náttúrunni í hengirúmi í þrjá mánuði. Hún svaf þar innan um villt dýr, kafaði eftir fiskum og tók myndir af dýrahjörðum sem áttu leið hjá dvalarstað hennar. 

Maðurinn hennar Andreas hefur einnig mikinn áhuga á náttúrunni. Hann er menntaður fiskifræðingur og hefur að eigin sögn eytt ótal stundum úti á miðunum að veiða ýmis konar fiska. 

Í samtali við Aftenposten segja þau að margir hafi búist við því að hjónabandið myndi ekki þola heilt ár úti í náttúrunni. „Margir spáðu því að hjónabandið myndi ekki endast. En þeir sem spáðu því þekkja okkur greinilega ekki,“ segir Elise. 

„Við höfum kynnst enn betur og erum nú betri vinir en nokkru sinni fyrr. Þegar þú situr inni í tjaldi fimmta daginn í röð vegna veðurs, þá neyðist maður til þess að ræða saman um vandamálin. Um leið og upp komu vandamál töluðum við um þau og greiddum þannig úr öllum smámálum sem hjón þurfa að greiða úr. Síðan vorum við líka dugleg við að gefa hvoru öðru smá tíma út fyrir sig,“ segir Elise.

Ævintýri þeirra hófst í Norður-Noregi. Þar reru þau um Lofoten í 47 daga og nutu náttúrunnar. Síðan héldu þau upp á hálendið þar sem þau dvöldust í fimbulkulda við erfiðar aðstæður. Þar lentu þau fyrst í hremmingum. Andreas skarst illa á fæti og þurfti að hafa samband við björgunarsveitir og var hann að lokum sóttur með þyrlu og færður á spítala. 

Þau gistu bæði undir berum himni og í einföldum kofum sem þau útbjuggu úr trjágreinum og spýtum. „Það erfiðasta var að þurfa að halda sér rólegum dögum saman vegna veðurs. Þegar vindurinn barði á kofann í marga daga samfleytt varð maður að sitja kyrr og finna sér eitthvað að gera,“ segir Andreas. Að hans sögn tók ævintýrið ekki síður á andlega en líkamlega.

Hjónin voru harðákveðin í að dveljast í náttúrunni í heilt ár en Elise heimtaði að ein undantekning yrði gerð. Hún var farin að sakna stórfjölskyldunnar mikið þegar fór að nálgast jólin og fóru þau þá heim og héldu jólin í faðmi fjölskyldunnar. 

Sjá umfjöllun Bergens tidende

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert