Brakið mögulega úr MH370

Frá frönsku eyjunni Reunion.
Frá frönsku eyjunni Reunion. AFP

Stjórnvöld í Malasíu hvöttu í morgun stjórnvöld í ríkjum í Indlandshafinu til að fylgjast vel með því hvort meira brak reki á land í ríkjunum.

Liow Tiong Lai, samgönguráðherra Malasíu, staðfesti í morgun að brakið sem skolaði á land á frönsku eyjunni Reunion á miðvikudaginn væri úr Boeing 777 þotu. Það þýðir að mjög líklegt sé að brakið sé hluti af malasísku farþegaþotunni MH370 sem hvarf sporlaust í fyrra.

Hann sagði að flugmálayfirvöld í Malasíu hefðu sett sig í samband við yfirvöld í ríkjum í Indlandshafinu, í grennd við eyjuna Reunion, og hvatt þau meðal annars til að fylgjast vel og vandlega með því hvort meira brak úr þotunni reki á land.

Í morgun fannst flugvélahurð sem skolað hafði á land á öðrum stað en brakið sem fannst á miðvikudaginn. Telja sérfræðingar afar líklegt að það sé einnig úr MH370.

Lai sagði að vænghlutinn sem rak á land fyrr í vikunni væri fyrsta áþreifanlega vísbendingin um að farþegaþota Malaysia Airlines hefði hafnað í Indlandshafi. Á vænghlutanum fannst verksmiðjunúmerið „657 BB“. Með því að rekja það var hægt að staðfesta að vængbúturinn væri af Boeing 777 þotu.

Brakið var flutt til Frakklands í gær þar sem það verður rannsakað, að því er segir í frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert