„Ég er einn í klefanum núna“

Pakistaninn Shafqat Hussain verður hengdur í kvöld
Pakistaninn Shafqat Hussain verður hengdur í kvöld Af vef Reprive

Pakistaninn Shafqat Hussain verður hengdur í kvöld þrátt fyrir alþjóðleg mótmæli vegna aftökunnar. Hussain var dæmdur til dauða árið 2004 fyrir morð en að sögn ættingja og mannúðarsamtaka var hann enn barn að aldri á þeim tíma og því ólöglegt að dæma hann til dauða. Aftökunni hefur verið fjórum sinnum það sem af er ári.

„Ég er einn í klefanum núna. Báðir klefafélagar mínar hafa verið hengdir. Ég deildi klefanum með Muhammad Faisal og Muhammad Afzal. Ég hafði deilt klefanum með þeim í sex eða sjö ár.

Ég get ekki einu sinni lýst því hvernig mér leið þegar þeir voru teknir af lífi. Ég náði varla að fylgjast með dauða þeirra þar sem það átti að taka mig af lífi daginn eftir. Mér hefur verið tjáð að það eigi að taka mig af lífi sjö sinnum. Í fyrsta skiptið árið 2013.

Þegar ég fékk tilkynninguna í fyrsta skiptið þá var ég afar áhyggjufullur og ráðþrota. Á einum tímapunkti er mér sagt að ég eigi að deyja. Það næsta sem ég veit að ég fái að lifa. Og sé neista vonar. En þá er mér aftur sagt að ég eigi að deyja. Þú verður fórnarlamb andlegs álags,“segir Hussain í samtali við CNN.

Í frétt CNN fá orð fangans að lifa.

Hussain segir að þeir sem hafa verið dæmdir til dauða fái fréttirnar með viku fyrirvara. Frá þeirri stundu er þeim haldið frá öðrum föngum og þeir velja í sjö daga einir í klefa í byggingu sem hýsir þá dauðadæmdu. 

Á hverjum degi er fanginn látinn gangast undir andlegt próf og hann vigtaður, blóðþrýstingur mældur sem og hitastig líkamans. Síðan er hann mældur hátt og lágt upp á að velja fatnað til þess að hengja fangann í. Síðasta daginn fær fanginn að kveðja fjölskyldu sína þar sem gengið er frá málum hans, til að mynda hvar eigi að jarðsetja hann.

„Flestir vilja láta grafa sig við hliðina á þeim sem þeir elska. Við hlið einhvers sem hefur farið á undan þeim, til að mynda móður eða föður eða afa eða ömmu, jafnvel systkini. Ég segi fjölskyldu minni að ég vilji hvíla við hlið frænda mín á heimaslóðum,“ Hussain. Það ríkir þögn í fangelsinu á aftökudögum.

Bresku mannúðarsamtökin Reprive hafa barist hart gegn dauðarefsingunni líkt og Amnesty International. Í tilkynningu frá Reprive kemur fram að Hussain hafi játað morð á sjö ára dreng á sig árið 2004 eftir margra daga pyntingar við yfirheyrslur. Hann var fjórtán ára þegar dómurinn féll fyrir 11 árum síðan.

Ríkisstjórn Pakistans hefur neitað að láta fara fram rannsókn á aldri fangans, meðal annars gögn úr skóla hans sem sýna aldur hans. Bænaskjal hefur verið afhent forseta landsins þar sem hann er beðinn um að þyrma lífi fangans.

Stuðnings­menn Hussain halda því fram að hann hafi verið 14 eða 15 ára þegar hann myrti dreng­inn. Erfitt hef­ur verið að kom­ast að því hversu gam­all Hussain er í raun og veru. Í frétt AFP kem­ur fram að upp­lýs­ing­ar um fæðing­ar eru oft ekki geymd­ar í Pak­ist­an, sér­stak­lega hjá fá­tæk­um fjöl­skyld­um.  Sam­einuðu þjóðirn­ar áætla að um fjórðung­ur fæðinga í Pak­ist­an séu skráðar op­in­ber­lega. 

Hussain er yngst­ur sjö systkina. Hann starfaði sem ör­ygg­is­vörður í Karachi árið 2004 þegar að sjö ára dreng­ur hvarf frá heim­ili sínu í hverf­inu. Nokkr­um dög­um seinna var hringt í for­eldra drengs­ins úr farsíma Hussain sem sagðist vera með dreng­inn í haldi og  lausn­ar­gjalds krafist. 

Hussain var hand­tek­inn og hann játaði að hafa rænt og myrt dreng­inn. Síðar dró hann játn­ing­una til baka og hélt því fram játn­ing­in hafi verið þvinguð. 

Hvergi í heiminum eru jafn margir á dauðadeild og í Pakistan eða um 8500 manns. 192 hafa verið teknir af lífi það sem af er ári en í lok desember var aflétt banni á aftökum þeirra sem eru dæmdir á grundvelli hryðjuverkalaga. Því hefur Pakistan tekið fram úr Sádí-Arabíu og Bandaríkjunum hvað varðar fjölda aftaka í ár.

Samkvæmt frétt Reuters í síðustu viku eru innan við 30% af þeim aftökum sem hafa farið fram í ár á dæmdum hryðjuverkamönnum.

Amnesty

Foreldrar Shafqat Hussain,
Foreldrar Shafqat Hussain, AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert