Ásakanir um blekkingarleik

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sakaði í dag stuðningsmenn samkomulagsins um kjarnorkuáætlun Írans um að hafa reynt að villa um fyrir almenningi. Þeir hafi mistúlkað samkomulagið, vitandi vits, sem og afstöðu ísraelska stjórnvalda til þess.

Netanyahu hefur lagst harðlega gegn samkomulaginu sem stórveldin sex náðu við stjórnvöld í Íran fyrr í mánuðinum. Hann hefur margoft hvatt bandaríska þingmenn til að hafna því.

Á ráðstefnu í Ísrael í dag fór hann hörðum orðum um suma ónafngreinda andstæðinga sína.

Hann ítrekaði að deilurnar við Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, sem hefur lýst yfir stuðningi sínum við samkomulagið, snerist ekki um persónurnar. „Þetta snýst ekki um mig og ekki um Obama forseta. Þetta snýst um samkomulagið.

Því betur sem fólk þekkir samkomulagið, þeim mun meira leggst það gegn því,“ sagði hann.

Það væri „svívirðileg lygi“ að þeir sem legðust gegn samkomulaginu vildu heyja stríð gegn Írönum.

Samkomulagið gengur út á að Íranir hægi á kjarnorkuáætlun sinni gegn því að stórveldin aflétti viðskiptaþvingunum sínum gagnvart landinu. Netanyahu óttast að Íranir komi sér upp kjarnorkuvopnum. Samkomulagið komi ekki í veg fyrir - heldur þvert á móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert