Seldar „eins og olíutunnur“

Írösk börn frá kristnum fjölskyldum eru meðal þeirra sem hafa …
Írösk börn frá kristnum fjölskyldum eru meðal þeirra sem hafa verið seld á þrælamarköuðum. Hér má sjá íraska fjölskyldu í flóttamannabúðum. AFP

Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna greindi frá því í dag að hún hafi séð „verðlista“ yfir börn sem hefur verið dreift milli meðlima Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak. Börnin sem um ræðir eru í haldi samtakanna og seld sem þrælar.

Zainab Bangura er sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna þegar það kemur að kynferðisofbeldi í vopnuðum átökum. Hún segir að hún hafi fengið eintak af listanum þegar hún var stödd í Írak í apríl.

Samkvæmt frétt The Independent birtist listinn á internetinu í nóvember á síðasta ári en þá var ekki staðfest að listinn væri ekta. Nú hefur Bangura staðfest að listinn er ósvikinn.

Í samtali við fjölmiðilinn Bloomberg sagði Bangura að stúlkur eru seldar „eins og olíutunnur“ og eru stundum aðeins keyptar svo að hægt sé að selja þær til fjölskyldna þeirra fyrir þúsundir dollara.

Að sögn Bangura eru ung börn, frá aldrinum eins til níu ára seld á um 165 Bandaríkjadali eða rúmlega 22 þúsund íslenskar krónur. Hinsvegar lækkar verðið þegar börnin verða unglingar.

Bangura bætti við leiðtogum Ríkis íslams er yfirleitt fyrst boðið að kaupa þrælana en síðan eru þeir seldir til útlendinga, oft til auðugra manna frá miðausturlöndum. Ef þeir kaupa ekki þrælana eru þeir yfirleitt seldir hermönnum Ríkis íslams fyrir lágt verð.

Á síðasta ári gaf Ríki íslams út bækling sem lýsti því hvernig komið er fram við kvenkynsþræla í haldi samtakanna. Þar kom m.a. fram að þeim væri oft nauðgað og þær barðar en það réttlætt með textabútum úr Kóraninum.

Þar að auki var gefið út myndband á síðasta ári sem sýndi þrælauppboð Ríkis íslams. Þar mátti sjá meðlimi samtakanna ræða hvað þeir myndu borga fyrir konurnar.

Fyrri frétt mbl.is:

Stúlkur seldar fyrir sígarettupakka

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert