Nicolas Maduro, forseti Venesúela, ákvað í dag að framlengja lokuninni á landamærum landsins við Kólumbíu auk þess sem hann lýsti yfir neyðarástandi á svæðinu sem liggur að landamærunum. Þetta gerði hann vegna árásar sem gerð var á landamæraverði í vikunni.
Þrír landamæraverðir voru þá skotnir til bana við skyldustörf við landamærin. Talið er að smyglarar hafi verið þar að verki. Meiri harka hefur verið að færast í smyglarahópa á svæðinu. Auk þess að loka landamærunum og lýsa yfir neyðarástandi hefur Maduro einnig sent yfir 100 hersveitir á umrædd svæði.