Vara við gullleitaræði

Lestin er sögð hafa flutt gull og gimsteina sem nasistar …
Lestin er sögð hafa flutt gull og gimsteina sem nasistar stálu í seinni heimstyrjöldinni. AFP

Yfirvöld í Póllandi hafa ráðlagt fjársjóðsleitarmönnum frá leit að lest nasista sem er sögð hafa horfið með gull, gimsteina og vopn innanborðs. Gera megi ráð fyrir að gildrur hafi verið lagðar í lestinni og mönnum stafi hætta af henni.

Þess hefur orðið vart að fólk leiti lestarinnar í Walbrzych eftir að fregnir bárust um fund hennar. Fyrr í þessum mánuði sögðust tveir menn hafa fundið lestina, en hún var sögð hafa horfið nærri því svæði þar sem borgin Wroclaw stendur nú, þegar sovéskar hersveitir nálguðust.

Mennirnir tveir héldu því fram að þeir hefðu fundið brynvarða lest og sögðu með milligöngu lögmanna að þeir færu fram á 10% af verðmæti þess sem væri um borð í fundarlaun.

„Ég hvet almenning til þess að hætta að leita að lestinni þar til formlegar aðgerðir til að tryggja fundinn eru yfirstaðnar,“ sagði háttsettur embættismaður innan menningarmálaráðuneytis Póllands.

Piotr Zuchowski sagði mögulegt að hættuleg efni væru innanborðs og miklar líkur væru á að gildrum hefði verið komið fyrir.

Hann sagðist þó fullviss um að lestin, sem hefur verið viðfangsefni orðróma og árangurslausra leita í áratugi, væri raunverulega til.

Aðstoðarborgarstjóri Walbrzych sagði blaðamönnum í gær að staðsetningu lestarinnar væri haldið leyndri. Einnig auðkennum mannanna sem fundu hana. Hann sagði lestina þó innan stjórnarmarka borgaryfirvalda.

BBC sagði frá.

Frétt mbl.is: Fjársjóðslestin fundin?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert