Fólk drukknaði á eigin heimili

Felicia Covin þerrar tárin á minningarathöfn um fellibylinn Katrina. 10 …
Felicia Covin þerrar tárin á minningarathöfn um fellibylinn Katrina. 10 ár eru frá því að fellibylurinn reið yfir. AFP

Í dag eru liðin 10 ár frá því fellibylurinn Katrina gekk yfir New Orleans. Íbúar borgarinnar minntust í dag þeirra sem létust en fögnuðu því jafnframt að borgin er að rísa upp á ný.

Leiðtogar borgarinnar lögðu kransa við minnismerki um fórnarlömb fellibylsins og minntust stundarinnar þegar fellibylurinn gekk yfir borgina, en fellibylurinn reyndist varnargörðum borgarinnar ofviða.

Rúmlega 1.800 manns létu lífið á svæðinu þegar Katrina gekk á land 29 ágúst 2005. Milljónir misstu heimili sín og fellibylurinn olli tjóni sem metið er á 150 milljarða dollara.

„Við erum hér enn“

„New Orleans mun hvorki bogna né brotna. Við erum hér enn, tíu árum síðar,“ sagði Mich Landrieu, borgarstjóri New Orleans við hugljúfa athöfn sem um 400 manns sóttu á lóð Charity spítalans á Canal-stræti í Lower Ninth Ward, svæði í borginni sem varð hvað verst úti í fellibylnum.

„Við höfum risið upp og munum rísa upp aftur, en við getum það einungis ef við styðjum hvert við annað og skiljum engan eftir. Við vitum að jafnvel nú þegar uppbygging borgarinnar er í gangi er enn fjöldi fólks sem syrgir dauða ástvina sinna. Ég vil að þær fjölskyldur muni að hugur okkar er hjá þeim,“ sagði Bobby Jindal, ríkisstjóri Louisiana.

„Þó svo að fellibylurinn hafi knésett okkur þá leyfðum við storminum ekki að halda okkur á hnjánum. Þar skín þrautseigja okkar í gegn,“ sagði hann.

Minntust eyðileggingarinnar

Eftir athöfnina þar sem kransinn var lagður að minnismerkinu viku hugljúfheitin fyrir skrúðgöngum og gleðskap að hætti íbúa New Orleans til að binda endahnútinn á viku þar sem horft var um öxl, auk þess sem Barack Obama Bandaríkjaforseti heimsótti borgina. Síðar mun Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, halda ræðu á minningarathöfn, auk þess sem fjöldi Grammyverðlaunahafa mun koma fram.

Viðburðirnir eiga það sameiginleg að minnast eyðileggingarinnar sem varð í borginni, sem og klúðurslegra viðbragða stjórnvalda í kjölfarið, sem hneykslaði heimsbyggðina alla.

Allt að 80% af láglendi borgarinnar hvarf undir vatn, sem varð allt að sex metra djúpt eftir að illa byggðir flóðavarnargarðar borgarinnar gáfu sig undan storminum. Vatnið reis svo hratt að fólk drukknaði á heimilum sínum. Þá var fjöldi fólks strandaglópar á þökum húsa sinna. Þeir örfáu blettir borgarinnar sem ekki fóru undir vatn urðu fljótt vettvangur lögleysu og uppþota þar sem tugir þúsunda biðu í örvæntingu eftir mat og hreinu vatni, sem tók langan tíma að berast.

Algjört ráðaleysi stjórnvalda

„Hvert okkar sem er nógu gamalt mun aldrei gleyma myndunum sem birtust af samlöndum okkar í hafsjó af ömurleika og rústum,“ sagði George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti þegar hann heimsótti skóla í borginni í gær.

Forsetinn fyrrverandi, sem sætti mikilli gagnrýni í kjölfar ráðaleysis stjórnvalda við vanda New Orleans fyrir áratug, sagði að hann væri hrærður af þrautseigju borgarinnar til að „byggja upp að nýju, betur en áður“ og „krafts sem væri sterkari en hvaða stormur sem er.“

Litrík hús á stultum hafa komið í stað rotnandi kofa sem hreyfingarlaust flóðavatnið skildi eftir sig. Tónlist og lykt af gumbo, þjóðarrétt New Orleans, eru aftur alltumlykjandi í franska hverfi borgarinnar.

Ferðamannaiðnaður borgarinnar er að komast á réttan kjöl. Níu milljón ferðamenn heimsóttu borgina í fyrra og borginni tekst að laða til sín sífellt fleiri fyrirtæki.

Þó svo að glæpir séu enn plága í borginni þá fer glæpatíðni lækkandi. Í fyrra var glæpatíðni sú lægsta sem hún hefur verið í 43 ár og mikil fækkun hefur orðið í fangelsum borgarinnar, aðeins þriðjungur af því sem hún var. Skólakerfið, sem komið var í öngstræti að margra mati, hefur verið tekið í gegn.

Obama lofaði það sem hann kallaði „ótrúlega þrautseigju“ þeirra sem snéru aftur til New Orleans til að gera við heimili í rúst og endurvekja fyrirtæki til að „skapa bjartari framtíð.“

Katrina „byrjaði sem náttúruhamfarir en varð manngert stórslys - ríkisstjórnin passaði ekki upp á sína eigin borgara,“ sagði Obama á fimmtudaginn þegar hann skoðaði borgina.

Sumir íbúar segja að „bragð“ borgarinnar, sem áður var meira í átt við kreóla, Afríku of Karabíska hafið, hafi breyst með storminum. Stór hluti íbúa New Orleans kom aldrei til baka. Nú búa 100.000 færri í borginni en áður en Katrina reið yfir og margir þeirra bjuggu ekki í borginni áður. Í borginni búa nú 115.000 færri blökkumenn og hefur hlutfall svartra íbúa í borginni fallið úr 68% niður í 60%.

Konur faðmast við nýjan flóðavarnargarð.
Konur faðmast við nýjan flóðavarnargarð. AFP
Nancy Pelosi og borgarstjóri New Orleans Mayor Mitch Landrieu leggja …
Nancy Pelosi og borgarstjóri New Orleans Mayor Mitch Landrieu leggja blómakrans á minnismerki um Katrinu. AFP
Mario Calonje stendur við minnismerki um fólk sem ekki fannst …
Mario Calonje stendur við minnismerki um fólk sem ekki fannst eða ekki var hægt að bera kennsla á. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert