Þúsundir gengu til stuðnings flóttamönnum

Dresden í dag.
Dresden í dag. AFP

Mörg þúsund manns komu saman í þýsku borginni Dresden í dag til að sýna stuðning sinn við stefnu stjórnvalda að taka flóttamönnum opnum örmum, og til að bjóða flóttafólk velkomið.

Fólkið gekk fylktu liði friðsamlega gegnum borgina meðan óeirðalögregla fylgdist með. Lögregla segir að 1.000 manns hafi gengið í Dresden, en þeir sem skipulögðu gönguna sögðu fjöldann nær 5.000.

Borgin er sá staður þar sem PEGIDA-hreyfingin, sem berst gegn Íslam, hefur hvað dýpstar rætur, en 25.000 manns mættu á vegum hreyfingarinnar til að mótmæla í byrjun árs.

Dresden er höfuðborg sambandslandsins Saxlands, en þar hefur fjöldi harkalegra mótmælaaðgerða gegn innflytjendum orðið þess valdandi að ríkisstjórn Þýskalands hefur sent viðbótarlögreglulið til Saxlands. Búist er við að 800.000 flóttamenn komi til Þýskalands í ár.

Tugir slösuðust í átökum lögreglu við öfgasinnaða mótmælendur sem börðust gegn því að ný miðstöð flóttafólks yrði opnuð í bænum Heidenau, 16.000 manna bæ nærri Dresden.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert