197 handteknir fyrir orðróm

Allt að þriggja ára fangelsi liggur við því að dreifa …
Allt að þriggja ára fangelsi liggur við því að dreifa orðróm á netinu. AFP

Yfirvöld í Kína hafa refsað 197 einstaklingum fyrir að dreifa orðrómi á netinu um hlutabréfahrunið þar í landi og sprengingarnar í Tianjin, þar sem 150 létu lífið. Það var ríkisfjölmiðillinn Xinhua sem sagði frá.

Blaðamaður og einstaklingar tengdir hlutabréfamörkuðum eru meðal handteknu samkvæmt Xinhua. Blaðamaðurinn var sakaður um að dreifa röngum upplýsingum um hlutabréfahrunið.

Kínversk yfirvöld hafa strangt eftirlit með upplýsingum á netinu og hafa áður handtekið fólk fyrir að dreifa orðrómi. Meðal þess orðróms sem hér um ræðir er að maður hafi stokkið til bana vegna verðhrunsins á hlutabréfamörkuðum og að í raun og veru hafi allt að 1.300 látið lífið í sprengingunum í Tianjin.

Þá sagði fréttastofan einnig frá því að útbreiðsla orðróms um viðburði til að minnast þess að 70 ár eru liðin frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar væri einnig meðal sakargifta.

Árið 2013 settu kínversk stjórnvöld lög þess efnis að allt að þriggja ára fangelsi lægi við því að dreifa orðrómi sem væri deilt 500 sinnum eða skoðaður 5.000 sinnum.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert