Fannst látinn í úthverfi Gautaborgar

Mynd af manninum sem leitað var og bifreiðin
Mynd af manninum sem leitað var og bifreiðin Sænska lögreglan

Maður á þrítugsaldri sem rænt í Gautaborg á fimmtudag fannst látinn skammt frá þeim stað sem honum var rænt, í gærkvöldi. Lögreglan rannsakar málið sem morð en tveir karlar og kona voru handtekin á föstudagskvöldið grunuð um aðild að mannráninu.

Lögreglunni í Gautaborg barst tilkynning um líkamsárás í Askim hverfinu í Gautaborg á fimmtudag en vitni sáu þrjá eða fjóra menn ganga í skrokk á manninum. Þeir tróðu fórnarlambinu síðan inn í rauða Passat bifreið og óku á brott.

Lögreglan birti mynd af fórnarlambinu og gaf upp fornafn hans, Anton, en hann var 27 ára gamall. Biðlaði lögreglan til almennings um að hafa samband hann hefði einhverjar upplýsingar um málið. 

Á föstudagskvöldið handtók lögreglan tvo karla, 26 ára og 48 ára og 28 ára gamla konu í tengslum við mannránið. Lögreglan hefur farið fram á að eldri maðurinn og konan verði úrskurðuð í gæsluvarðhald en ekki hefur verið óskað eftir því varðandi yngri manninn. Hann tilheyrir vélhjólasamtökum sem tengjast Vítisenglum.

Lík Antons fannst um sjöleytið í gærkvöldi skammt frá Sisjön vatni í Askim hverfinu. Er talað um að árásin tengist ógreiddri skuld en það hefur ekki fengist staðfest.

Frétt Gautaborgarpóstsins

Frétt Dn.se

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert