Fjórtán birnir fastir í búrum sínum

Birnirnir eru kaldir og þreyttir.
Birnirnir eru kaldir og þreyttir. Skjáskot af Youtube

Fjölmörg dýr drukknuðu í dýragarði í rússnesku borginni Ussuriysk eftir að á í borginni flæddi yfir bakka sína. Þar að auki eru fjórtán birnir fastir í búrum sínum og eitt ljón.

Dýr eins og úlfar, gaupa og birnan Masyanya, sem var fræg í borginni, drukknuðu í búrum sínum í gær. Myndband hefur verið birt sem sýnir dýrin í búrunum, sem eru hálf í kafi, á meðan dýragarðsstarfsmenn gefa þeim brauð, sykur og lyf úr litlum báti. Dýrin eru köld og þreytt en birnirnir hafa þurft að standa stöðugt uppréttir til þess að ná að anda.

Sky News segir frá þessu.

Dýraþjálfarinn Vera Blish sagði í samtali við fjölmiðla að stjórn dýragarðsins hafi brugðist hægt og illa við. „Það hefði getað verið hægt að fjarlægja dýrin, það eru hjól á búrum þeirra. Ég hringdi í eiganda dýragarðsins og grátbað um hjálp en enginn hlustaði. Ég vildi ná Masyanya úr búrinu, það hefði getað verið hægt að bjarga henni en þeir leyfðu mér það ekki.“

Samkvæmt rússneskum fjölmiðlum eru búrin ýmist innsigluð eða lyklarnir týndir. Eigandi dýragarðsins sagði að eina leiðin til að bjarga dýrunum væri með þyrlu.

Fyrr í dag sagði talsmaður yfirvalda að það væri óþarfi að bjarga dýrunum þar sem flóðið væri nú í rénum og dýrin ekki lengur í hættu. En seinna í dag fyrirskipaði stjórn héraðsins því yfir að dýrunum yrði bjargað og að þeir sem bæru ábyrgð á þjáningum þeirra yrði refsað. Einn sjálfboðaliði í dýragarðinum sagði að birnirnir yrðu fastir í búrum sínum allavega fram á morgundaginn.

Starfsmenn dýragarðsins hafa reynt að sinna björnunum eins og hægt …
Starfsmenn dýragarðsins hafa reynt að sinna björnunum eins og hægt er. Skjáskot af Youtube
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert