Gaddavírinn kominn upp

Flóttamenn sem komu að landamærum Ungverjalands og Serbíu á sunnudag mættu mikilli hindrun á för sinni: Gaddavírsgirðingu sem komið hefur verið upp til að varna flóttafólki að komast leiðar sinnar. Lokið var við fyrsta áfanga vírgirðingarinnar á laugardag, samkvæmt upplýsingum ungverska varnarmálaráðuneytisins. 

Þrír flugbeittir gaddavírar hafa verið strengdir um 175 kílómetra meðfram landamærunum. En ljóst er að girðingin mun ekki halda aftur af öllum flóttamönnum sem eru tilbúnir að leggja mikið á sér í leit sinni að betra lífi. 

Vírinn verður þó ekki það eina sem mun verja landamærin. Þegar vírarnir hafa verið strengdir verður reist fjögurra metra há girðing. 

Um 1000 starfsmenn landamæraeftirlitsins starfa nú a landamærunum og um 2000 munu bætast í hópinn í september að sögn ungverskra stjórnvalda. 

Ungverjaland tilheyrir Evrópusambandinu. Það gerir Serbía ekki. Í ár hafa um 140 þúsund flóttamenn komið til landsins frá Serbíu. Í síðustu viku komu t.d. 10 þúsund flóttamenn til Ungverjalands frá Serbíu.

Flestir þeirra hafa gengið langa leið frá vesturhluta Balkanskaga. För þeirra er margra heitið til Þýskalands og Svíþjóðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert