Komið nóg af dauða, þjáningum og ofsóknum

Fjöldi fólks mótmælti slæmri meðferð hælisleitenda í Vín höfuðborg Austurríkis í dag í kjölfar þess að lík 71 hælisleitanda fundust í yfirgefnum flutningabíl í landinu fyrir helgi. Þar af fjögurra barna. Fram kemur í frétt AFP að þátttakendur hafi verið um 20 þúsund talsins.

Mótmælendur söfnuðust saman við Westbahnhof-lestarstöðina í Vín og héldu síðan niður fjölfarna verslanagötu. Á sama tíma fór fram guðþjónusta í Dómkirkju heilags Stefáns vegna hinna látnu þar sem kardinálinn Christoph Schönborn sagði meðal annars í predikun að komið væri nóg af dauða, þjáningum og ofsóknum.

Mótmælin og guðþjónustan fóru fram skömmu eftir að hundruð hælisleitenda komu til Vínar frá Búdapest, höfuðborg Ungverjalands, eftir að hafa verið stöðvaðir tímabundið við landamærin að Austurríki. Margir þeirra fóru yfir í lest á leiðinni til austurrísku borgarinnar Salzburg en aðrir í lest sem var á leið til þýsku borgarinnar Munchen.

Lögregluþjónar fylgdust með en höfðu ekki afskipti af fólkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert