Raunverulega fjársjóðslest eða ekki?

Wikipedia

„Við höfum engar frekari sannanir fyrir því að eitthvað hafi fundist nú frekar en í fyrri tilfellum í gegnum tíðina,“ sagði Tomasz Smolarz, ríkisstjóri Neðri Slesíu í suðvesturhluta Póllands, við blaðamenn í dag vegna frétta af því að lest hafi fundist í nágrenni borgarinnar Walbrzych frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar sem hugsanlega hafi að geyma gull og gersemar.

Fram kemur í frétt AFP að ummæli Smolarz séu í ósamræmi við yfirlýsingar Piotr Zuchowski, aðstoðarmenningarmálaráðherra Póllands, gaf fyrir helgi um að hann teldi 99% líkur á að lestin væri fundin. Fram hefur komið að lestin væri falin inni í fjalli þar sem fjölda ganga væri að finna sem þýskir nasistar hafi látið grafa undir lok stríðsins. Zuchowski sagði að einstaklingur sem hefði tekið þátt í að fela lestina hafi á dánarbeði sínu upplýst hvar hana væri að finna. Sagðist hann hafa séð sannfærandi mynd sem tekin hafi verið í gegnum bergið og sýndi móta fyrir lestinni. Hún væri yfir 100 metra löng, brynvarin með fallbyssuturnum.

Smolarz sagðist enga slíka mynd hafa séð. Ekki væri hægt að draga þá ályktun að lestin væri raunverulega til út frá þeim gögnum sem lögð hefðu verið fram af tveimur karlmönnum, Þjóðverja og Pólverja, sem tilkynntu fyrr í þessum mánuði að þeir hefðu fundið lestina. Sögur um tilvist hennar hafa lengi verið sagðar og fjöldi manns reynt að finna hana og fjársjóðinn sem hún á að geyma en án árangurs. Smolarz sagði ennfremur að settur hefði verið saman hópur sagnfræðinga og jarðfræðinga til þess að kanna málið betur. Lögregla hefði girt svæðið af til þess að tryggja öryggi fólk sem fjölmennti þangað sem aldrei fyrr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert