Hvatti kærastann til sjálfsvígs

Michelle Carter og Conrad Roy.
Michelle Carter og Conrad Roy. Skjáskot af The Telegraph

Smáskilaboð sem bandarísk unglingsstúlka sendi kærasta sínum áður en hann féll fyrir eigin hendi sýna fram á að stúlkan hafi hugsanlega átt þátt í dauða drengsins.

Michelle Carter, sem var sautján ára þegar kærastinn hennar lést, hefur verið sökuð um að kúga hann til þess að fremja sjálfsvíg.

Samkvæmt frétt The Telegraph vissi Carter hinsvegar að smáskilaboðin frá henni litu illa út. „Ef lögreglan les skilaboðin okkar á milli er þetta búið spil. Fjölskyldan hans mun hata mig og ég gæti farið í fangelsi,“ skrifaði Carter til vinar síns eftir að kærastinn framdi sjálfsmorð. Áður en kærastinn lést lét Carter eins og hann hefði horfið. En á sama tímaskiptust þau á mörg hundruð smáskilaboðum.

„Þú verður loksins hamingjusamur í himnaríki. Enginn frekari sársauki,“ skrifaði Carter til kærastans, Conrad Roy. „Það er í lagi að vera hræddur og það er eðlilegt. Þú ert nú að fara að deyja,“ skrifaði hún. Mörg skilaboðin gefa í skyn að kærastinn sem hafði áður reynt að taka eigið líf, væri betur settur dáinn.

Ef hann efaðist um það að fremja sjálfsmorð brást Carter illa við. „Þú segist alltaf ætla að gera það en gerir það aldrei,“ skrifaði hún meðal annars. „Ég vil bara vera viss um að í kvöld sé kvöldið. Þú getur ekki frestað þessu áfram. Það er það eina sem þú gerir.“

Amma drengsins sagði í samtali við fjölmiðla að þrátt fyrir að Roy væri þunglyndur „var eins og hann væri að komast upp úr því.“

„Mér leið eins og blóðið hefði verið tekið úr mér. Ég trúi þessi ekki, þetta er of hræðilegt,“ sagði amman þegar hún heyrði af skilaboðum Carter.

Saksóknari í málinu sagði að það væri augljóst að Carter hafi vitað allt um sjálfsmorðshugsanir Roy. Í staðinn fyrir að reyna að hjálpa honum eða láta fjölskyldu hans eða skóla vita, hafði hún mikil áhrif á að hann lét verða af því. Á Carter bæði að hafa hvatt hann áfram og gefið honum hugmyndir um hvernig ætti að taka sitt eigið líf.

Carter og Roy kynntust árið 2012 og byrjuðu saman. Samband þeirra átti sér þó að mestu stað á netinu og í gegnum smáskilaboð. Carter rannsakaði á netinu hvernig Roy gæti tekið sitt eigið líf og sendi honum upplýsingar.

Eftir að Roy lést barðist Carter opinberlega fyrir umræðu um andlega heilsu.

„Þó að ég gat ekki bjargað lífi kærastans míns, vil ég reyna að hjálpa öðrum að bjarga lífum,“ skrifaði hún á Facebook og skipulagði viðburði til minningar um Roy.

Dómari á eftir að ákveða hvort að Carter verði ákærð vegna dauða Roy. Hún kemur frammi fyrir dómara 2. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert