Lögreglan biðlar til almennings

Ida Johansson
Ida Johansson Sænska lögreglan

Sænska lögreglan hefur birt mynd af 21 árs gamalli stúlku sem var myrt fyrir tæpum mánuði er hún var úti að hlaupa og biður fólk um að hafa samband viti það eitthvað um hver myrti hana. 

Móðir hennar mun koma  fram í sjónvarpsþættinum Nya efterlyst í kvöld en í stiklu úr þættinum grátbiður hún alla þá sem veitt gætu einhverjar upplýsingar um málið að hafa samband við lögreglu.

Ida Johansson fór út að hlaupa að kvöldlagi þann 5. ágúst en þegar hún skilaði sér ekki heim aftur fór lögregla að svipast um eftir henni. Hún fannst látin um nóttina í Runby, sem er í úthverfi Stokkhólms.

Enn er ekkert vitað hver myrti hana þrátt fyrir að lögregla hafi tekið lífsýni úr 350 manns í tengslum við rannsóknina. 

Talsmaður lögreglunnar í Stokkhólmi, Lars Byström, segir í tilkynningu frá lögreglunni í gær að þrátt fyirr að hafa yfirheyrt fjölda manns og margar ábendingar hafi borist þá hafi ekkert nýtt komið fram varðandi morðingjann. 

Í stiklunni lýsir hún því hvernig fjölskyldan reyni að taka á dauða stúlkunnar. Hún hafi verið hvers manns hugljúfi og það sé óskiljanlegt að hún hafi verið myrt.

Morðið hefur vakið athygli á öryggi kvenna þegar þær fara út að hlaupa í Svíþjóð. Nokkrum dögum eftir morðið tóku þúsundir þátt í kærleikshlaupi, Spring Med Kärlek, þar sem Idu Johansson var minnst. 

Amanada Jonasson, 25 ára, sagði í viðtali við Aftonbladet á þeim tíma að hún sé spurð ítrekað um hvernig hún þori að hlaupa ein. En hún neiti að láta undan hræðslunni og með því að taka þátt í kærleikshlaupinu sé hún og aðrir að sýna Idu Johansson samstöðu.

Skokkari myrtur í Stokkhólmi

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert