Brakið er úr vélinni í flugi MH370

Vænghlutinn á Reunion-eyju. Rannsókn á brakinu hefur staðið yfir í …
Vænghlutinn á Reunion-eyju. Rannsókn á brakinu hefur staðið yfir í mánuð. AFP

Franskir saksóknarar staðfestu í dag að brakið sem fannst á Reunion-eyju í Indlandshafi sé sannarlega úr farþegaþotu Malaysia Airlines í flugi MH370. „Í dag getum við sagt með fullri vissu að vænghlutinn sem fannst á Reunion-eyju 29. júlí er úr flugi MH370,“ segir í tilkynningu yfirvalda í París.

Alls voru 239 innanborðs þegar þota malasíska flugfélagsins vék af flugleið og hvarf á leið sinni frá Kuala Lumpur til Peking í mars 2014.

Flogið var með vænghlutann frá Reunion til Frakklands, þar sem hann var rannsakaður. Najib Razak, forsætisráðherra Malasíu, var fljótur að tilkynna að um væri að ræða brak úr vélinni í flugi MH370 en franskir rannsakendur vöruðu fólk við að hrapa að ályktunum og sögðu það aðeins líklegt.

Í tilkynningunni sem gefin var út í dag kemur fram að þrjú númer hafi fundist á vænghlutanum og að eitt þeirra hafi komið heim og saman við raðnúmer viðkomandi vænghluta vélarinnar týndu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert