Dró ólétta konu sína á lestarteinana

Myndin af fjölskyldunni á lestarteinunum hefur hreyft við mörgum. Örvænting …
Myndin af fjölskyldunni á lestarteinunum hefur hreyft við mörgum. Örvænting fólksins er augljós. Skjáskot af Sky

Maður sem dró ólétta eiginkonu sína og 8 mánaða gamlan son út á lestarteina í Ungverjalandi segir að hann hafi gert það því hann vildi deyja.

Faðirinn, sem er á flótta frá Sýrlandi, segir í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina að til hefði staðið að splundra fjölskyldu hans. Við það hefði hann ekki getað unað.

„Það er betra að deyja. Á þessum tíma þá vildi ég deyja,“ segir Mohammad Bakkar en hann er í flóttamannabúðum í Ungverjalandi ásamt eiginkonunni Samiya og syninum Husam. „Ástandið er ekki auðvelt, það er ekki mannúðlegt,“ segir hann um framkomu ungverskra yfirvalda í garð flóttafólksins. 

Fjölskyldan er á flótta frá Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Þaðan höfðu þau komist til Ungverjalands og í gær fóru þau í borð um lest sem þau töldu vera á leiðinni til Austurríkis.

För lestarinnar var frestað í bænum Biscke og yfirvöld reyndu að koma flóttafólkinu út úr henni og flytja í flóttamannabúðir. Samiya var með son sinn í fanginu og bað lögregluna að flytja sig vinsamlega ekki í búðirnar. Þá greip eiginmaðurinn í hana og dró hana og soninn á lestarteinana.

Lögreglan dró hann svo frá þeim og setti í handjárn. Mohammad segir að eiginkonunni líði ekki vel, hún sé komin fimm mánuði á leið. Hann segist hafa verið örvæntingarfullur í gær, er hann greip til þess ráðs að henda sér og fjölskyldunni á teinana, en það gerðu einnig fleiri flóttamenn. 

För fjölmargra flóttamanna hefur verið stöðvuð í Ungverjalandi en þaðan reyna þeir að komast til Vestur- og Norður-Evrópu. Flestir eru þeir frá Sýrlandi og Afganistan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert