Hjúskaparvottorðin gefin út aftur

Stuðningsfólk hjónabanda samkynhneigðra fyrir utan dómshúsið þar sem sýsluritarinn Kim …
Stuðningsfólk hjónabanda samkynhneigðra fyrir utan dómshúsið þar sem sýsluritarinn Kim Davis var úrskurðuð í varðhald í gær. AFP

Sýsluritaraskrifstofan í Kentucky sem hefur neitað að gefa út hjúskaparvottorð til að komast hjá því að þurfa að gefa út vottorð til samkynhneigðra para í trássi við niðurstöðu dómstóla lét af andspyrnu sinni í dag. Sýsluritarinn var handtekinn í gær fyrir að neita að framfylgja dómsúrskurðum.

Kim Davis, sýsluritari í Rowan-sýslu í Kentucky, brá á það ráð að hætta alfarið að gefa út hjúskaparvottorð eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna rétt samkynhneigðra para að ganga í hjónaband í sumar. Það gerði hún til þess að komast hjá því að veita samkynhneigðum þá þjónustu sem hún telur að stríði gegn kristinni trú sinni. Fjölmiðlar hafa þó bent á að sjálf hafi hún skilið þrisvar sinnum og gift sig fjórum sinnum sem þykir ekki í anda bókstafstrúarkristni.

Hún var handtekin í gær og í fjarveru hennar gáfu undirmenn hennar út hjúskaparvottorð fyrir þá James Yates og William Smith sem Davis hafði neitað þeim um fimm sinnum áður. Davis dúsir nú í fangelsi fyrir að óhlýðnast skipunum dómara, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Fyrri frétt mbl.is: Óhlýðnast hæstarétti vegna samkynja hjónabanda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert