Kveikti tvo litla elda um borð í flugvél

Vélin var á leið frá Birmingham til Egyptalands.
Vélin var á leið frá Birmingham til Egyptalands. Af Wikipedia

Flugáhöfn náði í gærkvöldi að yfirbuga mann um borð í flugvél á leið frá Birmingham til Egyptalands eftir að hann kveikti tvo litla elda um borð. Atvikið átti sér stað um borð farþegaþotu flugfélagsins Monarch en áhafnarmeðlimir brugðust fljótt við og slökktu eldana. Engan sakaði. Sky News segir frá þessu.

Hinsvegar neyddist flugstjórinn til þess að snúa vélinni við aftur til Birmingham. Einn farþegi um borð sagði í samtali við Birmingham Mail að maðurinn hafi kveikt eldana á salernum flugvélarinnar. Hann hafi einnig kveikt sér í sígarettu og ráðist áhafnarmeðlimi.

Maðurinn sýndi heldur enga iðrun og hreytti ókvæðisorðum að öðrum farþegum.

Talsmaður lögreglu sagði að málið væri enn í rannsókn og að enginn hafi verið handtekinn vegna þess.

Samkvæmt upplýsingum frá Monarch Airlines voru 208 farþegar um borð vélarinnar. Lögregla var um borð þegar að flogið var með hópinn til Egyptalands í dag.

„Bresk yfirvöld hafa verið látin vita og þau sjá um málið. Þar sem málið er nú í rannsókn getum við ekki tjáð okkur frekar,“ sagði í tilkynningu flugfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert