Donald Trump mun ekki bjóða sig fram sjálfstætt

Donald Trump með samninginn sem hann skrifaði undir í gær.
Donald Trump með samninginn sem hann skrifaði undir í gær. AFP

Forsetaframbjóðandinn Donald Trump hefur samþykkt að bjóða sig ekki fram sjálfstætt hljóti hann ekki tilnefningu repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári.

Trump hét fullri tryggð við flokkinn og þann frambjóðanda sem fær tilnefninguna á blaðamannafundi í gær en hann hafðu áður neitað því að útiloka sjálfstætt framboð.

Samkvæmt frétt BBC hefur Trump verið undir miklum þrýstingi frá flokknum síðustu vikur að skrifa undir samninginn. Trump lagði áherslu á að hann hafi ekki fengið neitt fyrir að skrifa undir samninginn nema tryggingu á því að komið yrði vel fram við hann í framboðinu.

Baulað var á Trump í sjónvarpskappræðum repúblikana í síðasta mánuði þegar hann neitaði að útiloka sjálfstætt framboð. Hann var eini þátttakandinn sem vildi ekki skuldbinda sig til þess að styðja sigurvegara forkosninganna.  

Á blaðamannafundi sem haldinn var í Trump turninum í New York í gær sagðist Trump hafa skrifað undir samninginn þar sem það væri besta leiðin til þess að vinna forkosningarnar.

„Ég sé ekki fyrir mér að ég myndi einhvern tímann rífa upp þennan samning,“ bætti hann við.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er Trump með 30% fylgi meðal repúblikana. Á eftir honum kemur Ben Carson en hann er með 18% fylgi. Hinir frambjóðendurnir eru aðeins með 8% fylgi hvor en það eru þeir Jeb Bush og Ted Cruz.

Trump er með 30% fylgi.
Trump er með 30% fylgi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert